Verðum að kenna ungu fólki að takast á við áreiti

Erla Súsanna Þórisdóttir.
Erla Súsanna Þórisdóttir. Skjáskot/Instagram-síða Törfrakistunnar

Þakklæti, gleði og samskipti eru þrjú einstaklega falleg orð sem eru einkennandi fyrir verkefnið Töfrakistuna.

Töfrakistan er hugmynda- og verkefnabanki sem er hugsaður fyrir kennara, uppalendur og í raun alla sem hafa áhuga á velferð barna og unglinga. Verkefninu stjórnar Erla Súsanna Þórisdóttir og ég fékk aðeins að spyrja hana út í Töfrakistuna.

Erla byrjaði með Töfrakistuna þegar hún var nemi í jákvæðri sálfræði í endurmenntun HÍ og í náminu var meðal annars lögð áhersla á svokallaða jákvæða menntun, sem felur í sér að kenna leiðir og auka færni nemenda til að auka eigin vellíðan, hamingju og bjartsýni.

View this post on Instagram

A post shared by Töfrakistan (@tofrakistan)

Erlu langaði að skapa vettvang þar sem hún gæti miðlað því sem hún hafði lært í þessum fræðum og einnig deila því sem hún var að gera sem grunnskólakennari. Síðastliðin sjö ár hefur hún lagt mikla áherslu á hugrækt í kennslunni og kenndi til dæmis núvitund og jóga á unglingastigi – sem hljómar alveg ótrúlega vel!

Fyrr í vetur fluttist Erla til Doha í Katar ásamt fjölskyldu sinni og hefur í kjölfarið verið að kenna 10 og 12 ára dætrum sínum í heimakennslu. Út frá því lifnaði Töfrakistan við og ákvað Erla að nýta tækifærið og fara með stelpunum sínum yfir allt það helsta sem gott er að hafa í farteskinu.

View this post on Instagram

A post shared by Töfrakistan (@tofrakistan)

Má þar nefna núvitund, þakklæti, hamingju, vaxtarhugarfar og styrkleika, sem eru ansi öflugir hlutir til að hafa með sér í tilverunni!

Erla segir stelpurnar sínar ekki endilega alltaf tilbúnar í slíka vinnu með mömmu sinni.

„Stundum eru þær þreyttar á þessu þakklætisdóti, eins og þær kalla það, en ég er að sá mikilvægum fræjum sem geta svo vaxið seinna meir,“ segir hún og bætir við að það sé mikilvægt að gera þetta svolítið létt og skemmtilegt þar sem slík verkefnavinna á alls ekki að vera á alvarlegum nótum.

View this post on Instagram

A post shared by Töfrakistan (@tofrakistan)

Að hennar mati ætti að kenna þessi fræði á öllum skólastigum og reynsla hennar er sú að nemendur eru almennt mjög áhugasamir um allt sem viðkemur þessu og þrá sem dæmi slökunartíma. Það er jú svo gott og mikilvægt að vinda ofan af, anda djúpt og slaka á.

„Áreitið er orðið svo mikið í okkar nútímasamfélagi sem er að mörgu leyti samfélagsmein og einnig sjálfskapað. Við verðum að kenna unga fólkinu okkar að takast á við þetta áreiti því ég held að það muni bara aukast. Ég þekki það af eigin raun að leyfa áreitinu að sigra mig þrátt fyrir að vera með þekkingu á þessu sviði og það eru mjög margir að bugast undan álagi. Hins vegar hjálpaði það mér gríðarlega að hafa allan þennan fjársjóð í kistunni minni. Það býr nefnilega fjársjóður innra með okkur öllum og stundum þurfum við bara smá aðstoð til að leysa hann úr læðingi,“ segir Erla að lokum og þetta eru mikilvæg og falleg skilaboð.

Á döfinni hjá Töfrakistunni er svo að halda áfram að deila efni sem nýtist heimilum, skólum og öðrum sem vinna með börnum og unglingum. Töfrakistan á sér einnig stóra drauma sem vonandi ná að líta dagsins ljós einn daginn.

mbl.is

#taktubetrimyndir