Þurfa frasa fyrir orðið „staycation“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hjá Borginni okkar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hjá Borginni okkar.

Staycation“ er orðið sem sumarborgin Reykjavík er að reyna að færa yfir á íslensku. Ástæðan er sú að verið er að reyna að hvetja fólk til þess að vera í borginni í sumar og fara í frí innan hennar, eða svokallað „staycation“.

„Við í borginni okkar ætlum að skella í skemmtilegt í sumar og „staycation“ er nú svona orð, svona bræðingur úr ensku, „stay“ og „vacation“, og að leita ekki langt yfir skammt. Við föttuðum þetta í fyrra, þjóðin meina ég, við fórum hringinn og allir rosa spenntir, takandi selfie hér og þar, hangandi í einhverjum gljúfrum. Nú er það bara: gerum þetta heima í borginni, bæði fyrir Reykvíkinga og fyrir landsmenn alla en þá vantar okkur nýjan frasa,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hjá Borginni okkar.

Ljósmynd/Skjáskot

„Nú ætlum við bara að skella í leik, finnum frasann yfir „staycation“ en það þarf ekki að vera bein þýðing eða eitthvað svona,“ segir hún enn fremur.

Þórdís segir Reykjavík vera með frábær hótel, stórkostlega veitingastaði og fullt af menningu. Allt sé það hluti af verðlaununum sem fást fyrir þann sem finnur besta orðið.  

„Gisting á Borginni, fjölskylduferð í Perluna, fljúga um með Fly over Iceland og svo er „brunch“ og kvöldmatur og miðborgarkortið. Þannig að það er hægt að gera sér glaðan dag ef maður fær góðar hugmyndir. Þetta verður að vera eitthvað spútnik og skemmtilegt, smá sexí,“ segir hún.

Þeir sem vilja taka þátt í leiknum geta farið inn á heimasíðuna Borgin okkar. Vinningshafi verður svo kynntur í beinni útsendingu á K100 laugardaginn 21. maí.

Viðtalið við Þórdísi má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir