Það leið yfir Sigga í bólusetningunni

Siggi sagði frá yfirliðinu í Sunderlandbolnum í beinni, ný kominn …
Siggi sagði frá yfirliðinu í Sunderlandbolnum í beinni, ný kominn úr höllinni.

„Ég þurfti að sækja vin minn núna áðan á leiðinni í vinnuna. Af hverju þurfti ég að sækja þig og hvert þurfti ég að sækja þig?“ spyr Logi Bergmann vin sinn og samstarfsfélaga Sigga Gunnars í upphafi Síðdegisþáttarins í gær.

„Þú þurftir ekki að sækja mig á hádegisbar, ekki á veitingastað. Þú þurftir að sækja mig í Laugardalshöllina. Þar sem ég var í óvæntri bólusetningu,“ segir Siggi Gunnars.

Siggi fékk óvænt boð í bólusetningu í hádeginu í gær og ákvað að skella sér í bólusetninguna. Hann segist hafa verið fullur tilhlökkunar, skemmtileg tónlist hafi verið í höllinni og allt hafi verið svolítið óraunverulegt. Siggi var bólusettur og allt var í góðu lagi þar til allt í einu sveif á hann yfirliðstilfinning.

Hlustaðu á bráðfyndna lýsingu Sigga af yfirliðinu í spilaranum hér að neðan:

 

Þá er bara komið að dauðanum

„Svo bara allt í einu sný ég mér að manninum sem situr við hliðina á mér og sagði við hann: Veistu það, ég finn svona smá yfirliðstilfinningu, heldurðu að þú getir hjálpað mér, veifað eða eitthvað? Svo man ég bara ekki neitt þangað til ég er að vakna og það er einhver svona músík og mér líður rosalega vel, ég er rosalega úthvíldur og ég hélt bara að ég væri að vakna og ég heima og ég mundi ekkert hvaða dagur og ekki neitt. Svo opnaði ég augun og þá sé ég einhverja konu í gulu vesti með talsvöðvar og grímu bara: „Er allt í lagi með þig?“ Og ég bara: „Ha? Já ég er hér.“ Svo bara hópast fólkið, örugglega komnir sex manns eða eitthvað, þar á meðal hjúkrunarkonan sem er alltaf í viðtölum. Og hún dregur niður grímuna hjá mér og segir að það sé betra að anda þannig. Síðan er mér lyft. Það er tekið í handlegginn á mér, það er tekið í fæturna, það er tekið í buxnastrenginn. Og svo bara lyft! Einn tveir og híf! Og ég er hífður upp í hjólastól og allir að horfa náttúrlega, búið að draga niður grímuna einhvern veginn og ég alveg rennandi sveittur. Og ég bara: jæja. Þá er bara komið að dauðanum, ég er að lenda í þessu 15 mínútna gati þarna. Svo er bara farið með mig á bak við og þar voru allir voða elskulegir við mig,“ útskýrir Siggi sem segir að sér hafi fundist þetta mjög sérstakt enda sé hann vanur að láta stinga sig.

Er með blóðþrýstingsfóbíu

„Þetta hlýtur bara að hafa verið spennufall. Það er svolítið yfirþyrmandi stemning þarna inni,“ segir hann.

Áður en Siggi fór í bólusetninguna hafði hann einmitt rætt nákvæmlega þessar aðstæður við vini sína og meira að segja sagt að það ætti örugglega eftir að líða yfir sig. Þegar Siggi vaknaði úr yfirliðinu var verið að spila mjög hávært fjörugt lag.

„En tilfinningin þegar þú vaknar eftir yfirlið er sælutilfinning. Það er svona bara: ég er svo úthvíldur og kominn nýr dagur og eitthvað og ég mundi ekkert eftir því að ég hafði verið í bólusetningu. En svo kom það alveg um leið sko. Svo gátu þeir ekki tekið blóðþrýsting hjá mér vegna þess að ég er með fóbíu. Að láta herða og þetta er líka vandamál þegar ég fer í blóðprufur og svona. Þú veist að stöðva blóðflæði eða hindra blóðflæði í handleggnum er bara eitthvað, þá bara líður yfir mig,“ segir Siggi.

Hann bað því viðbragðsaðila á svæðinu að bíða með að taka blóðþrýstinginn og leyfa sér aðeins að jafna sig.

„Ekki láta stóra manninn fara í gólfið aftur. Og líka í Sunderland-búningi af öllu. Ég keyrði sérstaklega heim þegar ég fékk sms-ið til að ná í Sunderland-treyjuna af því að ég ætlaði að vera í henni við þetta hátíðlega tilefni og ég féll bara eins og Sunderland. Þetta var svo fyndið ég var svo langyngstur þarna einhvern veginn að ég er enn þá að átta mig á því af hverju ég var boðaður í þetta. Þetta er undirliggjandi hommaskapurinn sko,“ segir hann og hlær.

mbl.is

#taktubetrimyndir