Blöskraði hvað hún var orðin stirð

Sólveig Rún er yogakennari, pílateskennari, flugmaður, fagkona og mikill lífskúnstner.
Sólveig Rún er yogakennari, pílateskennari, flugmaður, fagkona og mikill lífskúnstner. Skjáskot/Instagram hjá Sólveigu Rún

Sólveig Rún er jógakennari, pílateskennari, flugmaður, fagkona og mikill lífskúnstner. Hún kennir nú námskeið sem er kynning á stralajóga, öndun og hugleiðslu auk þess sem hún deilir sínum hugmyndum um mataræði, lífsstíl og annað sem henni dettur í hug. Ég fékk að spyrja Sólveigu aðeins út í jógað og tilveruna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sólveig heldur námskeið eins og þetta og hún segist nú þegar farin að hugsa um framhaldið. Sólveig hefur unnið sem flugmaður og flugstjóri frá árinu 2008 en var sagt upp vegna Covid.

Hún er svokallaður „Strala Yoga Guide“ og fékk nýlega pílateskennararéttindi. Hún hefur mikinn áhuga á hreinum og lífrænum snyrtivörum og heldur úti vefverslun þar sem hugmyndin er að selja vörur sem „tikka í öll boxin“, þ.e. eru náttúrulegar, góðar fyrir okkur og umhverfið, virka og hún elskar.

Að sögn Sólveigar var streita lengi stór hluti af hennar lífi og hefur hún verið lengi á ferð og flugi. Sólveig ólst upp við boltaíþróttir en skráði sig loksins í jógatíma þegar henni blöskraði hvað hún var orðin stirð. Hún fann strax hvað jóga hafði góð áhrif á hana og ákvað því að halda áfram. Það tók hana dágóðan tíma að losa sig við keppnisskapið og streituna en eitt sinn þegar hún var stödd í New York rambaði hún inn í strala-jógatíma, sem hún féll algjörlega fyrir sem og hugmyndafræðinni á bak við strala. Hún ákvað því að fara í strala-kennaranám árið 2015 og þá varð ekki aftur snúið.

En hvað er strala-jóga spyrjið þið þá. Strala-jóga sameinar hreyfingar og speki thai chi og jóga auk þess að tengjast aldagömlum austurlenskum lækningaaðferðum. Strala er jógaflæði þar sem þú hreyfir þig án óþarfa áreynslu í gegnum mismunandi jógastöður og kveikir á svokölluðu „relaxation response“ eða „rest and digest“, sem að sögn Sólveigar er það ástand sem við viljum vera í stærstan hluta lífsins.

Í þessu ástandi hefur líkaminn tækifæri til að jafna út ójafnvægi sem hefur myndast, lagfæra meiðsli og auka og viðhalda almennu heilbrigði. Þannig tengistu þér betur, afkastar meiru með minna álagi og færð almennt betri aðgang að þér sjálfum. Þú æfir þig í að tengja saman öndun og hreyfingu, leyfir hreyfingunni að koma frá miðjunni og hreyfir þig mjúklega í gegnum mismunandi stöður.

Hér er ekkert keppnisskap eða markmiðasetning. Með því að taka markmiðið út úr myndinni og æfa þig í að halda mýktinni og anda í gegnum erfiðar æfingar stækkar þægindaramminn smám saman. Með reglulegri æfingu fer þér svo að líða betur í öllu sem þú gerir og segir Sólveig þetta ómissandi hluta af deginum.

„Hver kannast ekki við að vera að keyra bíl í vondu veðri og stífna upp og ríghalda í stýrið? Þá getur maður minnt sig á þetta; að halda mýktinni, anda og finna hvernig allt verður auðveldara,“ bætir hún við að lokum. Þetta hljómar svo vel að mig langar eiginlega bara beint í strala-tíma!

mbl.is

#taktubetrimyndir