Getur verið erfiðast að missa hárið

Sirrý Einarsdóttir.
Sirrý Einarsdóttir.

„Hugmyndin af mínu fyrirtæki sem heitir ossom útlit í rauninni fæddist þegar ég sjálf þurfti að glíma við hárleysi vegna veikinda, krabbameins. Í kjölfarið missti ég hárið eins og svo margir og hélt nú bara að það væri tímabundið á meðan á veikindunum stæði en raunin var nú sú að ég fékk ekki hárið nógu vel aftur og mjög gisið hár og svona og áður var ég með ofsalega þykkt og fallegt hár. En þetta reyndist náttúrulega mjög erfitt,“ segir Sirrý Einarsdóttir hárgreiðslukona í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar.

Þegar Sirrý fór að jafna sig eftir veikindin sem hún gekk í gegnum fór hún að leita ýmissa lausna til þess að geta hulið gisið hárið og segist hún hafa notast við allskonar efni.

„Svona sprey og duft og allskonar bara reyna að finna lausnir. Þetta er náttúrulega mikill svona hluti af manni, hárið og sjálfsmyndinni og annað þannig að ég er búin að vera þar og alltaf að leita lausna í allskonar þannig að 2013 þá stofnaði ég fyrirtæki þar sem ég var að hjálpa konum í krabbameinsmeðferð sem voru að ganga í gegnum það sama og ég og langaði að veita þeim góða þjónustu. En það var svolítið stutt liðið frá mínum veikindum þannig að ég hafði nú ekki kannski alveg 100% orku það var búið að reyna að segja mér það en svona er maður bara stundum,“ segir Sirrý.

Fannst vanta þjónustu fyrir fólk sem glímir við hárvandamál

Hún viðurkennir að vegna orkuleysis og af því að sjálf hafi hún ekki verið búin að ná sínum bata fullkomlega hafi hún þurft að loka fyrirtækinu sem hún opnaði.

„Þetta hefur bara kraumað í mér ennþá og ég ákvað að slá til bara núna síðastliðið sumar eða sem sagt hugmyndin fæddist síðastliðið sumar, í miðju covid auðvitað. Og ég og vinkona mín sem að hefur mikinn áhuga á þessum málefnum. Við ákváðum að láta þetta verða að veruleika og bara opna fyrirtæki. Okkur fannst vanta svolítið meiri þjónustu fyrir fólk sem er að glíma við allskyns hárvandamál eins og hárleysi og hárlos, hvort sem það er tímabundið eða varanlegt,“ segir hún.

Skoða hársvörðinn með hárgreiningartæki

Sirrý segir að þrátt fyrir að það séu ekki bara konur sem missi hárið þá séu samt sem áður þeirra helstu viðskiptavinirnir hingað til.

„Það sem kom okkur eiginlega mest á óvart er að það er mikið af ungum konum sem eru að koma og leita til okkar sem eru að upplifa veikindi, sjálfsofnæmissjúkdóma mikið, alopecia og svona ýmislegt og við erum mikið búnar að vera að fræðast um þessi efni,“ segir Sirrý og bætir við:

„Hárkollurnar eru einn hluti af þjónustunni sem við veitum konum sem eru annað hvort að glíma við tímabundið hárleysi eða varanlegt sem eru þá sjúkdómar þar sem þú ert alltaf hárlaus en hinn hluti meðferðarinnar er að við erum með hárgreiningartæki þar sem við mælum hársvörðinn. Við erum með smásjármyndavél, þá sjáum við hársvörðinn í 200 sinnum stækkun og 50 sinnum stækkun og við getum séð í raun svolítið undir hársekkina. Hvort það sé líf eða hvort það séu stíflur sem eru að valda vandamálunum.“

Ekkert endilega allir kallar vilja raka af sér hárið

Sjálf segist hún tengja mjög vel við það erfiða tímabil sem það getur verið að missa hár og hvetur hún alla þá sem eiga við vandamál að stríða og vilja leita sér lausna að hafa samband.

„Það hefur nú bara þróast þannig að 99% okkar kúnna eru konur. Samfélagið hefur svolítið bara sagt við karlana að þeir geti rakað á sér hárið en það er ekkert endilega þannig að allir karlmenn séu tilbúnir að gera það. Þetta er mjög erfitt tímabil og ég tengi mjög mikið við það og eins mikil veikindi og krabbamein er og alvarlegt í rauninni þá getur oft verið erfiðast fyrir konur, þá sérstaklega sem ég þekki til, að missa hárið og ég tengi það rosalega vel. Okkar draumur er að verða hármeðferðarmiðstöð. Að vera staður fyrir fólk til þess að leita á ef það er að glíma við einhverskonar vandamál og þá erum við líka að tala um ef þú ert með exem eða mikla flösu eða ofsalega feitan hársvörð og þarft alltaf að vera að þvo þér að þá geta verið stíflur undir hársekkjunum sem eru að valda því,“ segir hún.

Viðtalið við Sirrý má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir