Alvarlegt að sækja sér fylgi með kjaftasögu

Ljósmynd/Samsett

„Sölvi lenti heldur betur í því og kjaftasögurnar fóru ansi hratt yfir, það verður að segjast eins og er og hann er búin að vera núna að líða vítiskvalir samkvæmt þessu viðtali sem hann tók við sjálfan sig í gær og hefur verið núna á netinu og fólk hefur sjálfsagt farið í gegnum. Þetta er náttúrulega svolítið merkilegt hvernig á svona stuttum tíma svona getur gerst og það er eiginlega kannski það sem eftir situr eftir að hafa séð þetta viðtal að þá leið manni ekkert rosalega vel. Ég verð að biðja Sölva Tryggva afsökunar og mér líður ekki vel eftir að hafa séð þetta viðtal,“ segir Jón Axel Ólafsson í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun.

Jón Axel viðurkennir að hann tók fréttunum hrátt og kom þeim sjálfur áfram. Hann segir það vera það versta sem hægt sé að gera í stöðu sem þessari.

„Og mér leið rosalega illa yfir því og eins og ég segi ég þarf að biðja Sölva Tryggvason afsökunar næst þegar ég hitti hann og ég ætla að láta mér þetta að kenningu verða. Þetta er eins og þegar maður er að fara í gegnum svona þessi hélt fram hjá, þessi gerði þetta. Maður er aldrei á staðnum, maður veit aldrei allar hliðar málsins, maður veit ekkert hvað er búið að segja, hvað er búið að gera og maður veit ekkert hver sannleikurinn er. Kannski eru bara þrjár hliðar á öllum málum eins og einhver sagði,“ segir Jón Axel enn fremur.

Björn Steinbekk fékk að kenna á slúðursögum

Athafnamaðurinn Björn Steinbekk fékk á sínum tíma að kenna á slúðursögum eftir að margir Íslendingar sátu eftir með sárt ennið eftir að hafa keypt miða af honum á leik Íslands og Frakklands á Evrópumótinu en komust aldrei inn á leikvanginn. Björn mætti í viðtal í morgunþáttinn og ræddi um þá erfiðleika sem hann gekk í gegnum í kjölfar slúðursins á sínum tíma en hann er einnig góður vinur Sölva og skilur því vel hvernig honum líður þessa dagana. Ítarlegt viðtal við Björn má finna neðst í þessari frétt.

„Ég náttúrulega fyrst og fremst er bara ánægður með hann Sölva vin minn að taka þetta viðtal. Ég er líka mjög hrifin af því að Saga sé að hjálpa honum sem er vinkona mín líka og hefur reynst mér mjög vel. Þetta eru tveir mjög flottir einstaklingar að tala um mál sem að við þurfum raunverulega að fara að taka upp. Ég ætla nú ekki að líkja mínu máli saman við Sölva. Í mínu tilfelli þá geri ég sannarlega mistök og hef alltaf borið ábyrgð á þeim en það voru skrifaðar um mig fréttir á fréttamiðlum sem voru rangar, voru ekki sannar. Það hringdi fólk ítrekað inn sem var í fréttunum og bað um að þær yrðu teknar út og leiðréttar og blaðamenn urðu ekki við því og sérstaklega einn blaðamaður á Vísi, bara fyrir klikkin sko,“ segir Björn.

Alvarlegt að sækja sér fylgi með kjaftasögu

Björn segir að staðan sé orðin þannig að við séum komin inn í þjóðfélag þar sem fólk heldur hlutum fram á Internetinu, smáskilaboðum, Twitter eða öðrum miðlum sem það hefur akkúrat enga hugmynd um.

„Og það sem er alvarlegra við þetta ástand er það er að fólk er að leita sér sjálft að auknu fylgi, auknu vægi í einhverri umræðu út á kjaftasögur. Út á hluti sem það þekkir ekki og það er í rauninni það fólk sem á að skammast sín hvað mest. Ég sé hérna einhverja crossfit manneskju sem ég „actually“ leit upp til fyrir nokkrum vikum síðan, fara hamförum þegar þessi kjaftasaga fer af stað. Og mér skilst að hún hafi sagt að hún hafi þekkt fórnarlambið í þokkabót og við erum tala um það að það er farið af stað til að fá athygli inn á Instagram til að sækja sögur, hefurðu lent í ofbeldi af frægum einstaklingum? Hvert erum við komin þegar sko fólkið hoppar á vagninn til að ýta undir sitt eigið fylgi? Til þess að ná sér í fleiri „like.“ Til að fá einhverja fróun út úr því að það séu 7000 manns búin að sjá einhverja „story“ hjá þér. Þetta er bara stórhættulegt,“ segir Björn.

Ætlaði að drepa sig og fór á geðdeild

Björn viðurkennir að þegar hann sjálfur lenti í vandræðum vegna miðanna á leikinn hafi hann verið sá eini sem var rólegur og að reyna að leysa málin.

„Allir hinir fóru bara á taugum eða fríkuðu út eða trylltust. Það var ekki fyrr en í nóvember sem ég endaði inn á geðdeild. Ég fór bara niður eftir og fékk hjálp. Ég ætlaði bara að fara að drepa mig. Það er bara þannig,“ segir hann.

Björn segir fjölmiðla aldrei hafa haft raunverulegan áhuga á staðreyndum máls hans og að margar fréttir sem birtar voru hafi verið rangar. Hann segist vel skilja reiðina og tilfinningarnar sem komu upp hjá fólki sem ekki komst á leikinn enda hafi þetta verið stór mál þegar Ísland komst á EM í átta liða úrslit.

„En að fólk hafi verið að toga í hárið á konunni minni, hrækja á hana og lemja hana þegar við vorum að reyna að afhenda þeim miðana. Það segir sig bara sjálft hvað gekk raunverulega á, við höfum bara aldrei talað um þetta,“ segir hann.

Sölvi á ekki að skammast sín

Björn hefur síðan þá verið að vinna sig út úr áfallinu en hann fékk áfallastreituröskun, átti við svefnleysi og líkaminn og stoðkerfið hrundi. Hann segir að þrátt fyrir gríðarlegan stuðning fólks til Sölva einmitt núna sé ekki hægt að segja honum að gleyma þessu.

„Það koma allir núna og segja bara ekki láta þetta á þig fá, nú er bara að halda áfram og ég er búinn að heyra oft bara „let it go“ sko Frosen frasann. En það er ekkert hægt, þú getur ekkert sagt við einhvern; „Hérna það er búið að smána þig opinberlega og hérna bara „let it go“ farðu niður á Gló og fáðu þér kaffi.“ Það er bara ekki þannig, þetta tekur tíma. En það sem hann á að gera er að hann á ekki að skammast sín. Þú verður einhvern veginn að taka skömmina út úr þessu hann gerði ekkert rangt,“ segir hann.

Ítarlegt viðtal við Björn um atburðarásina sem hann lenti í vegna miðasölunnar og umræðu hans um mál Sölva má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: 


 

mbl.is

#taktubetrimyndir