Sauð upp úr í umræðu um húsmæðraorlof

Camilla og Jón Axel tókust á um húsmæðraorlof.
Camilla og Jón Axel tókust á um húsmæðraorlof.

„Málið er bara að nú á ég tvö börn, ég á einn sex ára og ég er ekkert kúl lengur. Það er bara ekkert kúl við mig. Honum finnst ég ekki kúl,“ segir Camilla Rut samfélagsmiðlastjarna í morgunþættinum Ísland vaknar þar sem umræðan snerist um húsmæðraorlof sem Camilla fór í á dögunum.

Camilla skellti sér í húsmæðraorlof með vinkonum sínum þar sem þær áttu góðar stundir saman og velti Jón Axel, einn af þáttarstjórnendum Ísland vaknar, því fyrir sér hvers vegna konur í dag þyrftu húsmæðraorlof þegar konur í gamla daga voru heimavinnandi með fleiri börn, nóg að gera og kvörtuðu ekki.

„Hvernig ætli þeim hafi liðið samt í hjartanu og sálinni og huganum? Í dag erum við vinnandi konur líka,“ segir Camilla eftir að Jón útskýrir að sér finnist húsmæðraorlof skrítið.

„Veistu hvað, nú þarft þú að fara að passa þig, ég get svo svarið það. Mér verður heitt í hamsi. Þannig er mál með vexti að ég á tvö börn, ég er með tíu mánaða og ég er með sex ára og það er bara mamma, mamma, mamma allan daginn, reyndar líka pabbi enda hvet ég hann líka til þess að taka sér húsfeðraorlof. Ég er oft að hvetja hann til þess að gera eitthvað fyrir sjálfan sig; kaupa sér föt, hitta strákana, fá sér einn kaldan eða gera eitthvað svona næs fyrir sjálfan sig út af því að ég veit bara hvað það er hollt fyrir sálina. Ef við nærum ekki okkur sjálf, hvernig eigum við þá að næra krakkana, hvernig eigum við þá að næra hvort annað?“ spyr Camilla.

Konur eru í 300% vinnu

Jón Axel var alveg handviss á því að skoðun hans ætti rétt á sér og vildi hann endilega opna fyrir símann og fá að heyra hvað hlustendur segðu.

„Já af því að við þurfum líka frí sko. Af því að við erum í vinnu og svo erum við í 100% vinnu við það að ala upp börnin okkar. Þú færð orlof í vinnunni, af hverju ættirðu ekki að fá orlof frá heimilisstörfunum?“ spyr hlustandi sem hringir.

Camilla samsinnir því og svarar: „Þú verður að finna kraftinn innra með þér. Ég er ekki bara mamma, ég er eiginkona, ég er ekki bara húsfreyja, ég er kynvera, ég er Camy, ég er kona og það er kraftur í mér. Þannig kem ég tvíefld til baka.“

Annar hlustandi hringir inn og segir: „Við mæður erum ekkert í 100% prósent vinnu. Við erum í svona 300% vinnu. Við fáum ekki einu sinni að fara einar á klósettið. Þú veist, halló. Ég er reyndar einstæð móðir þannig að ég fæ húsmæðraorlof aðra hverja helgi sem er náttúrlega bara bráðnauðsynlegt fyrir sálina. Við konur þurfum klárlega bara stundum að anda og fá að vera við sjálfar.“

Umræðurnar um húsmæðraorlofið voru mjög heitar og greinilegt að það skipti mæður miklu máli. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir