KALEO framan á treyjum Aftureldingar

Hljómsveitin Kaleo á Grammy-verðlaunahátíðinni.
Hljómsveitin Kaleo á Grammy-verðlaunahátíðinni. AFP

Hljómsveitin KALEO mun næstu tvö árin vera með aðalauglýsinguna framan á búningum meistaraflokks karla hjá Aftureldingu.

Samkvæmt tilkynningu um samstarfið á facebooksíðu knattspyrnudeildar Aftureldingar er um sögulegan samning að ræða þar sem ekki er vitað til þess að heimsfræg hljómsveit hafi áður auglýst framan á búningum félags á Íslandi.

Söngvari hljómsveitarinnar, Jökull Júlíusson, spilaði sjálfur fótbolta með félaginu en hætti eftir 3. flokk til þess að einbeita sér að tónlistinni. Þá spiluðu hinir meðlimir hljómsveitarinnar einnig með yngri flokkum Aftureldingar en þeir eru allir úr Mosfellsbæ.

„Tengingin við Mosfellsbæ er alltaf óendanlega sterk og við höfum alltaf fundið fyrir miklum stuðningi frá sveitungum okkar. Þetta er því frábært tækifæri til að gefa til baka og einfaldlega heiður að starfa með mínu uppeldisfélagi! Það hefur verið ótrúlega gaman að sjá félagið vaxa síðustu ár og verður gaman að fylgjast með framhaldinu,“ segir Jökull Júlíusson um samstarfið.

mbl.is

#taktubetrimyndir