Símaskortsfælni birtingarmynd undirliggjandi vandamála

Nomophobia eða símaskortsfælni er ótti við það að vera ekki …
Nomophobia eða símaskortsfælni er ótti við það að vera ekki með símann á sér eða að hann sé að verða batteríslaus. Ljósmynd/Unsplash/Vitolda Klein

„Þetta hefur verið mjög umdeilt vegna þess að fíkn er mjög sterkt líffræðilegt fyrirbæri og menn hafa deilt um það hvort það sé hægt að tengja þetta við hluti eins og farsíma eða tölvuleiki eða því um líkt. En nú á síðustu árum hafa menn eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að það sé til fyrirbæri sem þeir kalla sem sagt „nomophobia“; no mobile phone phobia sem við getum kallað símaskortsfælni,“ segir Árni Matt í viðtali við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum en Árni mætir reglulega í þáttinn og ræðir þar um ýmsar hliðar tækninnar.

„Það er þessi ótti við það að vera ekki með símann eða að verða batteríslaus,“ útskýrir Árni enn fremur.

Ekki skráð í neina handbók um geðsjúkdóma

Árni segir að fyrirbærið sé ekki skráð í neina handbók um geðsjúkdóma en vegna mikilla rannsókna á málefninu séu menn farnir að hallast að því að þetta sé til.

Árni segir að ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar um málið og meðal annars hafi verið komist að því að 50% ungs fólks í Portúgal og 35% ungs fólks á Spáni finna til kvíða séu þau ekki með símann á sér, eigi ekki inneign eða að hann sé að verða batteríslaus. Munurinn á milli þjóðanna vakti áhuga og veltu rannsóknarmennirnir því fyrir sér hvort um menningarmismun væri að ræða.

Alvarlega símaskortsfælni megi rekja til geðrænna vandamála

Þá segir Árni unga menn sem einangrist á heimili sínu lengi hafa verið þekkt vandamál í Japan en eftir að farið hafi verið í rannsóknir á því máli hafi komið í ljós að ungu mennirnir hafi átt við einhvers konar geðræn vandamál að stríða. Hann segir að alvarlega símaskortsfælni megi rekja til sams konar vandamála.

„Rannsóknir á þeim hafa sýnt að þetta eru krakkar sem eru með undirliggjandi geðsjúkdóma og það er svolítið atriði í þessari símaskortsfælni; alvarleg tilfelli hennar eru oftar en ekki birtingarmynd einhverra undirliggjandi vandamála, undirliggjandi félagsfælni eða kvíðaröskunar eða því um líkt. Þannig að þetta er ekki svo einfalt að síminn sé að valda þessu. Svo er líka annað atriði að þeir sem eru kannski félagsfælnir þeir fara að nota síma til þess að sigrast á félagsfælninni en verða enn verr haldnir vegna þess að það er alltaf verið að bíða eftir umbuninni. Ég pósta einhverju og ég vil fá umbun núna. Ég vil að einhver setji hjarta eða þumal eða eitthvað því um líkt. Þannig að það hefur líka aukið kvíða fólks að nota símann svona mikið. Þetta er tvíeggjað sko. Það er fólk sem á kannski í erfiðleikum sem heldur svona fast í símann en síminn er líka að ýta undir erfiðleika og valda vandræðum,“ segir hann.

Viðtalið við Árna má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir