Júlía miðlar jákvæðri sýn á kvenfyrirmyndir

Júlía Brekkan vill miðla jákvæðri sýn á kvenfyrirmyndir.
Júlía Brekkan vill miðla jákvæðri sýn á kvenfyrirmyndir. Skjáskot/Instagram-síða Fyrirmyndir.is

Fyrirmyndir leynast víða og flestir eiga sér einhvers konar fyrirmynd sem þeir líta upp til, enda getur það reynst manni vel.

Fjölbreyttar fyrirmyndir skipta því miklu máli og ég er svo heppin að eiga alls konar fyrirmyndir í kringum mig.

Ég rakst á Instagram-aðganginn fyrirmynd.is sem mér fannst ótrúlega áhugaverður en fyrirmynd.is er vefverslun sem selur sérútbúin veggspjöld með teikningum af fyrirmyndum. Kona að nafni Júlía Brekkan stendur á bak við verkefnið og ég fékk að spyrja hana aðeins út í það.

View this post on Instagram

A post shared by FYRIRMYND (@fyrirmynd.is)

Aðspurð segir Júlía að verkefnið endurspegli hversu dýrmætt það er að hafa stuðning og eiga sterkar fyrirmyndir. Hún segir fyrirmyndir birtast okkur í daglegu lífi í svo mörgum myndum og er vert að minna á þær. Hugmyndin um fyrirmynd.is kviknaði í raun út frá mikilvægi kvenfyrirmynda og þeim flottu konum og fyrirmyndum sem hún sjálf lítur upp til í lífinu.

Júlía gerði óformlega könnun í upphafi verkefnisins og þar komu 10 nöfn oftast upp sem fyrirmyndir. Eru það Vigdís Finnbogadóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Katrín Jakobsdóttir, Högna Sigurðardóttir, Halla Tómasdóttir, Ellý Vilhjálms, Björk Guðmundsdóttir, Birgitta Haukdal, Annie Mist og Alma Möller.

View this post on Instagram

A post shared by FYRIRMYND (@fyrirmynd.is)

Hún byrjaði því á að útbúa veggspjöld með þessum konum, sem koma allar frá ólíkum geirum samfélagsins.

Einnig teiknar Júlía eftir persónulegum pöntunum. Hún segist hafa útbúið vettvanginn fyrirmynd.is til að miðla jákvæðri sýn á kvenfyrirmyndir og minna á að þær geti birst okkur hvar sem er, hvort sem þær eru þjóðþekktar, í fjölskyldunni eða vinkonur.

Ótrúlega uppbyggilegt og skemmtilegt verkefni og áfram kraftmiklar og margvíslegar fyrirmyndir!

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir