Elma Dís dansar með morgunkaffinu

Ljósmynd/Instagram-síða Elmu Dísar Árnadóttur

Eitt það allra besta við samfélagsmiðla er hvað þeir geta dreift mikilli gleði. Skemmtileg myndbönd geta svo sannarlega létt lund þeirra sem fylgjast með og dagurinn fyrir vikið orðið betri.

Ein af mínum uppáhalds instagramgellum er ung kona að nafni Elma Dís Árnadóttir, sem er ekki endilega þekkt fyrir að vera áhrifavaldur en býr yfir virkilega góðu „contenti“.

Næstum hvern einasta morgun deilir Elma myndböndum af sér í story að laga morgunkaffið sitt á heldur betur hressandi hátt, þar sem hún syngur og dansar um af mikilli einlægni.

Á Instagram hjá henni má finna svokallað „story highlight“ undir nafninu how2homeoffice þar sem hún hefur tekið saman sínar bestu kaffistundir og getur fólk því notið gleðisprengja hennar endalaust. Ég spjallaði aðeins við Elmu Dís og fékk að heyra hvernig hún varð að þessum sannkallaða samfélagsmiðlastuðbolta.

Elma Dís segir að síðastliðið ár hafi heldur betur verið upp og niður hjá sér og samkomubannsreglur reynst krefjandi fyrir jafn mannblendna og opna manneskju og sjálfa sig. Í október síðastliðnum var vaxandi skammdegi farið að hafa áhrif á andlega líðan hennar en hún fann þá mikla gleði í tónlistinni, þar sem tónlistin getur jú oft glatt hjartarætur. Hún ákvað að búa til playlista á Spotify undir nafninu „bad bitch not a sad bitch“ með lögum sem færðu henni gleði.

Eins og svo margir aðrir var Elma að vinna heima fyrir og þegar bæði líkamsrækt og vinna var færð yfir á heimilið var mestmegnis búið að loka fyrir þau samskipti sem hún átti dags daglega.

Þá segir hún að samfélagsmiðlarnir komi oft að góðu gagni þar sem manni líður eins og maður fái aðeins að skyggnast inn í líf vina sinna. Eftir að hafa eytt flestum sínum stundum heima fyrir í nokkra mánuði fór kaffibollinn að skipta Elmu miklu máli og segir hún það oft hafa verið eina tímann sem minnti hana á að standa upp og hreyfa sig aðeins.

Út frá því byrjaði hún að hlusta á tónlist og dansa á meðan hún hellti upp á kaffi og varð þetta fljótlega algjör hápunktur morgunsins. „Sérstaklega þar sem ég er ekki mikil morgunmanneskja og hef oft átt erfitt með að vakna snemma,“ segir stuðboltinn Elma sem er fyrir vikið orðin mun meiri morgunmanneskja.

Í kjölfarið komst hún að því að gott lag og dans geta gert alla daga betri. Út frá því byrjaði hún að deila þessu með vinum sínum á Instagram og dansa þau inn í daginn. Aðspurð segir hún að viðtökurnar hafi verið alveg ljómandi góðar og við vonum að það hvetji hana eindregið áfram við að dreifa gleðinni!

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir