Heimsfrægur hönnuður glæsisnekkjunnar A

Philippe Starck, hönnuður glæsisnekkjunnar A, segist óhamingjusamur. Sköpunarkrafturinn er þó …
Philippe Starck, hönnuður glæsisnekkjunnar A, segist óhamingjusamur. Sköpunarkrafturinn er þó óumdeildur. Samsett mynd/Wikipedia og Skapti Hallgrímsson.

Franski glæsisnekkjuhönnuðurinn Philippe Starck á hvorki síma né bíl, kann ekki stafrófið, vinnur best í einrúmi og er algjörlega óhamingjusamur.

Á þessum orðum hefst umfjöllun Boat International um hönnuð glæsisnekkjunnar sem sigldi inn Eyjafjörð fyrr í þessum mánuði. Snekkjan, sem nefnist A, bíður þar eftir eiganda sínum, milljarðamæringnum Andrey Igorevich Melnichenko.

Sjórinn væri hundleiðinlegur staður til að vera á ef ekki væri fyrir menn eins og Starck sem hugsa út fyrir kassann. Sagan segir að það hafi tekið hann einungis tvær klukkustundir að hanna snekkjuna A. Í viðtali við Boat International vísar hann því þó alfarið á bug. „Stundum tekur það mig bara 30 sekúndur að hanna,“ segir Starck og kímir. „90% af minni vinnu er svona. Ég skammast mín aðeins fyrir þetta því þetta er auðvitað ekkert eðlilegt.“

Sjálfur telur hann upptök sköpunargáfu sinnar renna í undirvitundinni eins og kvika nálægt yfirborði. Kvikan brýst upp á yfirborðið og fullmótuð hönnun verður til hjá honum á augabragði. Þjáning í tengslum við sköpun og endalaus leit að lagfæringum er honum algjörlega framandi. „Fólk verður alltaf undrandi þegar ég segist geta hannað eitthvað á fimm mínútum en það er samt satt og það er ekki eitthvert uppkast. Uppkast er fáránlegt,“ segir þessi magnaði hönnuður í viðtalinu við Boat International.

Glæsisnekkjan A er sögð sú stærsta sinnar tegundar í heiminum sem er í einkaeigu. Hún er 145 metra löng og 25 metra breið. Þrjú möstur ná um 100 metra í hæð. Ástæðan fyrir því að snekkjan liggur ekki á Pollinum á Akureyri er sögð sú að möstrin gætu truflað flugumferð.

Snekkjan á systurskip sem einnig ber heitið A. Hún kom hingað til lands árið 2016 og vakti mikla athygli. Starck segist hafa hannað þá snekkju til að vera ósýnileg. „Ég nálgaðist hönnun þess út frá hreyfingum hafsins og hvernig hvalir hreyfa sig í sjónum,“ er haft eftir Starck á heimasíðu hans.

Starck forðast tækni og notar ekki bíla. Þetta hefur ekkert með meinta andúð hans á slíku að gera heldur að hann segist algjörlega ófær um að nýta sér tæknina. „Ég á ekki síma því ég hef ekki hugmynd um hvernig ég að nota slíkt tól,“ segir hann og bætir því við að þetta eigi ekki bara við um snjallsíma. „Ég kann hvorki stafrófið né að margfalda eða deila. Ég kann ekki mánuðina í réttri röð ef ég byrja ekki á janúar. Ég á við örlitla einhverfu að glíma hvað þetta varðar.“

Þetta gæti skýrt af hverju hann lokar sig algjörlega af frá umheiminum þegar hann vinnur að verkefnum sínum og þann þráláta orðróm að hann sé erfiður í samstarfi. „Ég er aldrei hamingjusamur og ég skil ekki fólk sem segir að takmark sitt sé að verða hamingjusamt. Af hverju? Markmiðið í lífinu er að vinna og leggja eitthvað af mörkum. Af hverju ættum við að vera hamingjusöm? Fáránleg spurning. Ég er mjög óhamingjusamur enda er mér aldrei boðið á neina viðburði.“

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir