Ætlaði í heimspeki en varð í staðinn heimsþekktur

Jökull Júlíusson.
Jökull Júlíusson. Ljósmynd/Dan Winters

Sigurganga mosfellsku sveitarinnar KALEO á erlendri grund ætti að vera flestum Íslendingum kunn. Lögin af plötu þeirra A/B, sem kom út árið 2016, hafa hljómað um allan heim og hafa þeir sömuleiðis spilað á tónleikum víðsvegar m.a. með Rolling Stones. Því hafa meðlimir sveitarinnar flestir verið búsettir í Bandaríkjunum sökum þessa.

Nú hefur ný plata litið dagsins ljós, platan Surface Sounds sem kom út 22. apríl sl. en hún var að mestu tekin upp í Nashville þar sem Jökull Júlíusson, forsprakki sveitarinnar, hefur verið búsettur.

Útgáfa plötunnar var frestað vegna kórónuveirufaraldursins en platan átti að koma út í fyrra og í kjölfarið átti að fylgja henni eftir með tónleikaferðalagi. Nú er platan komin út en tónleikaferðalagið þarf enn að bíða betri tíma. 

Spjallaði um lífið sl. 8 ár hjá Loga og Sigga

Jökull var gestur Loga og Sigga í Síðdegisþættinum á K100 þar sem þeir ræddu vítt og breytt um árin frá því að Kaleo var að spila í bílskúr í Mosfellsbæ yfir í háklassa hljóðver í Nashville. Það er komið ansi langt síðan Jökull var í því sem kallast hefðbundin vinna hér heima á Íslandi.

„2013 var ég í sumarvinnunni í Mosó með krakkana upp í Úlfarsfelli að moka skít. Síðan ætlaði ég í háskólann, var skráður í heimspeki, en svo fór einhvernvegin allt á flug og þetta gerðist allt á methraða. Mér finnst eins og það sé heil lífstíð síðan,“ sagði Jökull í spjalli við þá Loga og Sigga en viðtalið má heyra í heild sinni hér að neðan. 

Höfðu gott af óvæntu hléi

Jökull segir einnig frá því hve vel þetta óvænta hlé hefur farið með KALEO-hópinn en þeir hafa notið þess að vera á Íslandi í rúmt ár og tengja aftur við ræturnar, að verða bílskúrsband aftur. 

Strákarnir munu því væntanlega vera ferskir og þyrstir í að spila fyrir fólk þegar þeir fylgja eftir útgáfu plötunnar með tónleikaferðalaginu Fight or Flight Tour sem upprunalega var skipulagt fyrir sumarið 2020 en hefur nú verið endurbókað frá febrúar árið 2022. Fyrstu tónleikarnir í tónleikaferðalaginu verða 22. Febrúar í Seattle.

Hægt er að skoða Norður-Ameríku legg tónleikaferðalagsins hér.

mbl.is

#taktubetrimyndir