Lærum að setja mörk þegar við eldumst

Kristín Þórs, kynlífsmarkþjálfi.
Kristín Þórs, kynlífsmarkþjálfi. Ljósmynd/Aðsend

„Það skiptir öllu máli upp á sjálfsvirðinguna, að maður beri virðingu fyrir sjálfum sér og að maður sé ekki að gera eitthvað sem maður er ekki til í. Af því að oft á tíðum þekkjum við það að einhvern tímann höfum við farið yfir mörkin okkar flest hver, sem unglingar og sem ungur og óþroskaður einstaklingur þá oft gerir maður kannski eitthvað sem eftir á að hyggja er maður bara; ok ég var kannski ekki alveg til í þetta,“ segir Kristín Þórsdóttir kynlífsmarkþjálfi í morgunþættinum Ísland vaknar.

Umræðan í þættinum snerist um það hversu mikilvægt það er að geta sett mörk þegar kemur að kynlífi.

„Ég tala rosalega mikið um þetta og heyri mjög mikið um þetta þegar ég er að halda forvarnarfræðslu fyrir unglinga, að þau trekk í trekk fara yfir mörkin sín. Við tölum líka um hvað það er að setja mörk og ég tala oft um þessa tilfinningu sem kemur upp, innsæið, litla röddin,“ segir hún.

Æfing að setja mörk

Kristín segir að öll kyn lendi í því að fara yfir mörkin sín á einhverjum tímapunkti, það sé ekki bara bundið við stúlkur.

„Ég vissi um einn sem var ekki tilbúinn til þess að stunda kynlíf þegar hann var unglingur, hann bara langaði ekki að stunda kynlíf fyrr en hann væri búinn að kynnast manneskju sem hann væri með og það var endalaust verið að ýta á hann frá vinum hans. Það eru alveg líka strákar og allir að lenda í þessu. Það skiptir svo miklu máli að setja mörk upp á að geta notið. Af því að myndir þú vilja vera með manneskju sem er ekki að virða mörkin sín og þú vissir svona innst inni að: „Æi kannski er ég að gera eitthvað of mikið sem hún er ekki til í,““ segir Kristín.

Kristín segir það vera æfingu að setja mörk og að fólk sé ekkert endilega gott í því til að byrja með.

„Sérstaklega þegar maður er að prófa fyrir sér í einhverju nýju. Eins og þegar maður er ungur og er að byrja að stunda kynlíf með einhverjum aðila. En svo lærum við eftir því sem við fullorðnumst og svo skiptir svo miklu máli að standa með sjálfum sér,“ útskýrir hún.

Góð samskipti skipta máli

Þá segir hún mörkin snúast um góð samskipti, að geta átt samtal við þann sem verið er að stunda kynlíf með.

„Eitt af heimaverkefnunum sem fólk gerir þegar það kemur til mín er að gera svona „sexual history“. Það er í rauninni bara til að skoða af hverju ert þú í dag eins og þú ert sem kynvera. Þá gerir þú svona „sexual history“ sem er frá því að þú hafðir vit á því hvað kynlíf var. Hvenær manstu eftir að hafa örvast fyrst, horfðir þú einhvern tímann á klám, hvenær byrjaðir þú að stunda sjálfsfróun. Skrifa niður tímalínu sirka á hvaða aldri maður var og skrifa það góða og það slæma. Sjá svona munstrið hvað kveikir i þér og hvað finnst þér gott. Og í þessu „sexual history“ kemur oft fram að: „Já þarna fór ég yfir mörkin mín, þarna lenti ég mögulega í einhverju ofbeldi.“ Að sjá þetta bara svart á hvítu á blaði þá gerir maður sér oft grein fyrir því hver staðan er og þá er hægt að vinna út frá því,“ segir hún.

Viðtalið við Kristínu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir