Fór næstum því að gráta eftir bólusetninguna

Bára Guðmundsdóttir segist hafa verið gráti næst eftir bólusetninguna.
Bára Guðmundsdóttir segist hafa verið gráti næst eftir bólusetninguna. Skjáskot/Instagram

Góðan og gullfallegan miðvikudaginn, síðasta dag vetrar. Í gær var dásamlegur dagur fyrir marga. Sólin skein, sundlaugar opnar, vorið gaf okkur vonina um bjartari framtíð og margir fengu bólusetningu og upplifðu þar með mikinn létti.

Þar á meðal var hin 23 ára gamla Bára Guðmundsdóttir, háskólanemi og Crohn's queen, en hún er í áhættuhópi sökum ónæmisbælandi lyfja og hefur því þurft að einangra sig mikið síðastliðið ár.

View this post on Instagram

A post shared by @baragumm

Ég fékk að spyrja hana aðeins út í upplifunina við að fá fyrstu sprautuna af bóluefninu Pfizer.

Aðspurð sagði Bára að þetta hefði verið eins og jólin hefðu mætt á svæðið um miðjan apríl, þó með tilheyrandi bongó (blíðu). Hún fann fyrir mikilli tilhlökkun en að bólusetningu lokinni hafi hún verið í ákveðnu spennufalli.

„Ég sat þarna titrandi í smá spennufalli eftir sprautuna þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands hóf allt í einu að spila Litlu fluguna fyrir viðstadda. Þetta var falleg stund og ég fann fyrir margs konar tilfinningum. Ég fór næstum því að gráta. Það verður gott að geta loksins hitt vini og fjölskyldu og þurfa ekki að vera stressuð yfir því. Ég hlakka samt mest til að geta farið með kærustunni minni að heimsækja mömmu mína og fjölskyldu í Kanada en ég hef ekki séð þau í að verða eitt og hálft ár og sakna þeirra mikið. Ég geri mér grein fyrir því að það gerist ekki strax en eftir sprautuna er ég þó skrefinu nær,“ segir þessi bjartsýna unga kona brosandi, sem er búin að sýna mikla þrautseigju síðastliðið ár.

Seinni sprautan kemur svo á ansi skemmtilegum tíma í hennar lífi.

„Samkvæmt mínum útreikningum ætti hún að koma 11. maí en ég klára vorprófin hinn 10. maí svo ég sé fram á mjög gott sumar,“ segir Bára.

Að lokum heimtaði hún svo að fá að þakka ónefndri kærustu sinni fyrir að vera best og fyrir allan stuðninginn, tillitssemina og ástina. Þær hafa víst brallað ýmislegt skemmtilegt og fundið ýmsar leiðir til þess að hafa gaman í einangrunartímabilum síðasta árs. Ljósi punkturinn í lífinu er oft beint fyrir framan mann.

mbl.is

#taktubetrimyndir