Hvorki athyglissýki né frekja að koma sér á framfæri

Anna Lára, Vigdís Finnbogadóttir og Sunneva.
Anna Lára, Vigdís Finnbogadóttir og Sunneva. Skjáskot/Instagram

Þær Anna Lára og Sunneva hafa undanfarið verið að vinna í því að útbúa fræðslunámskeið fyrir ungar stelpur á aldrinum 14-16 ára sem ber heitið Taktu pláss.

„Þetta er svona valdefling og sjálfsefling og í rauninni bara svolítið pepp. Við vorum sammála því við Anna Lára að við hefðum viljað fá þetta pepp á þessum aldri og fá þá svona smá extra hvatningu og kannski bara innprenta það í okkur sem fyrst að við megum taka pláss og að koma okkur á framfæri sé ekki athyglissýki eða frekja og að það sé hægt að sækja innblástur í alls kyns fólk og að þú þurfir ekkert að eiga eina fyrirmynd,“ segja vinkonurnar tvær í viðtali við þau Loga Bergmann og Evu Ruzu í Síðdegisþættinum.

Hitta konur sem eru óhræddar við að taka pláss

Þær hafa undanfarið verið að hitta flottar konur í samfélaginu sem hafa verið óhræddar við að taka pláss.

„Við höfum rætt við Evu Ruzu, Brynju Dan, Gerði Arinbjarnar, Vigdísi Finnbogadóttur, Katrínu Jakobsdóttur og Áslaugu Örnu. Við erum ekkert hættar, við erum bara að safna í banka. Þetta er partur af fræðslunni sem heitir „15 ára þú“ þar sem við erum að hitta flottar konur í samfélaginu sem hafa verið óhræddar við að taka pláss og náð árangri á sínu sviði og verið fyrirmyndir fyrir okkur hinar. Við erum að spyrja þær svolítið hvað þær myndu segja við 15 ára sig, hvaða skilaboð þær hafa til 15 ára stelpna í dag og hvort það væri eitthvað sem þær hefðu viljað kunna eða vita á þessum aldri sjálfar sem hefði sparað þeim einhverja vanlíðan eða tíma,“ útskýra þær.

„Er þetta enn þá nauðsynlegt í dag?“

Anna Lára og Sunneva stefna á að fara með námskeiðið bæði í félagsmiðstöðvar og grunnskóla landsins. Þær segja að það yrði frábært að ná að byrja námskeiðið í vor en líklega verði stefnan sett á að byrja næsta haust.

Mikil breyting hefur orðið í samfélaginu frá því Vigdís Finnbogadóttir var fimmtán ára og segja þær að það hafi verið sláandi þegar Vigdís velti því fyrir sér hvort námskeið sem þetta væri enn nauðsynlegt.

„Það var pínu sláandi þegar við hittum Vigdísi og hún spurði okkur: „Er þetta enn þá nauðsynlegt í dag?“ Þetta er náttúrulega eitthvað sem hún er búin að berjast fyrir, hún er nú 91 árs, og er eitthvað sem hún hefur barist fyrir, það er bara að taka pláss og vera óhrædd við að standa á sínum skoðunum og berjast fyrir því sem hún telur vera jafnréttismál og hennar svona gildum í lífinu. Henni fannst það svolítið merkilegt að þetta skyldi vera enn þá þarft í dag og spurði okkur svolítið hvað við héldum að væri ástæða þess. Við töluðum um að það væru mögulega samfélagsmiðlar  sem skipa svolítið stóran þátt þar. Þar er búið að setja ákveðinn „standard“ og staðalímyndir og ramma sem ég held að mjög margar stelpur séu uppteknar við að falla inn í og þessi þörf að falla inn í hópinn,“ segja þær.

Árangur annarra er ekki þitt fall

Þær segja mikilvægt að kenna ungum stúlkum það sem fyrst að þær megi gera það sem þær vilja og að þær þurfi ekki að vera „svona eða hinsegin“ frekar en þær vilji.

„Vigdís var með rosalega flotta punkta og talaði náttúrulega um að standa á sínu svo lengi sem þér finnst það vera jafnréttismál, ekki ef það er einhver frekja eða tilætlunarsemi,“ segja þær.

Þá segja þær mikilvægt að kunna að samgleðjast og styðja aðra.

„Árangur annarra er ekki þitt fall. Það að Anna Lára nái einhverjum flottum árangri gerir mig ekkert að verri manneskju eða minni manneskju. Heldur er bara frábært að kunna að samgleðjast henni, hvetja hana og styðja áfram og ég held að það skili þér árangri svona „in the end“ að kunna að samgleðjast og styðja aðra.“

Viðtalið við Önnu Láru og Sunnevu má nálgast í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir