Flökurleiki og verkir meðal einkenna Röggu

Ragga Nagli er með Covid.
Ragga Nagli er með Covid.

„Það er eins og nefnd hafi komið saman og hent í samansafn af random einkennum sem birtast fyrirvaralaust og yfirleitt þegar þú heldur að þér sé að batna,“ segir Ragga nagli í nýjasta pistli sínum á Facebook.

Ragga greindist á dögunum með Covid og segir hún veikindin ein þau skrítnustu sem hún hafi upplifað.

Fyrstu þrjá dagana segir Ragga að einkennin hafi aðallega verið hiti, beinverkir, gríðarleg þreyta og mikil svengd. Síðan hafi veikindin breyst.

„Síðan lækkaði hitinn niður í velling. Svengdin hjaðnaði en þreytan grasseraði áfram. Nettur flökurleiki hefur síðan verið viðvarandi síðasta sólarhringinn. Eina nóttina mættu á svæðið ógeðisverkir í vöðvum eins og satanískar harðsperrur sem trufluðu svefninn. Pirringur og óþægindi í vöðvum eins og þeir stæðu í björtu báli. Mætti halda að Naglinn hafi hlaupið maraþon og maxað réttstöðulyftu, þegar eina hreyfingin voru þrír örstuttir göngutúrar,“ útskýrir Ragga.

Ragga segir að sér líði best utandyra í fersku lofti og sól sem nú er farin að sýna sig vel í Danmörku þar sem hún býr. Hún segist hafa prófað alls konar remedíur, bætiefni, jurtalyf, vítamín og fabrikkupillur í þeirri von að hrista veikindin af sér. Þá segir hún hvern dag vera skárri en daginn á undan og hún sé því vonandi að ná að vinna bug á veikindunum.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir