Endurgerir atriði úr kvikmyndum og stjörnurnar eru hrifnar

Hin 4 ára gamla Maddie Presser er ansi öflug leikkona, búsett í Bandaríkjunum. Maddie hefur endurleikið hin ýmsu frægu kvikmyndaatriði heima fyrir og brugðið sér í ýmis hlutverk þar sem trúverðugleiki hennar skín í gegnum myndavélina.

Eins og flestallir aðrir hafa Maddie og fjölskylda hennar eytt miklum tíma heima fyrir undanfarið ár og datt þeim því í hug að byrja með Youtube-rás undir nafninu Quarantine 2020 Productions.

Þar deila þau myndböndum af þessum endurleiknu atriðum en aðalmarkmið myndbandanna er að vekja athygli á samtökunum Feeding America, sem sérhæfa sig í að útvega mat fyrir þá sem í neyð eru. Enn fremur hefur fjölskyldunni tekist að safna heilmiklum peningum til styrktar samtökunum.

Maddie fær stundum aðstoð frá fólki í kringum sig við ákveðin atriði og fær litla bróður sinn til þess að leika á móti sér þegar vantar einhvern í hlutverk sem á að hlusta vel eða fara að gráta. Þessi unga og kraftmikla stelpa hefur vakið mikla athygli og lukku meðal aðdáenda og nú síðast var hún fengin til þess að vera með í spjallþættinum Late-Night með Jimmy Kimmel.

Þar léku þau á móti hvort öðru stutt atriði úr kvikmyndinni Good Will Hunting, með hinni víðsfrægu línu „How do you like them apples?“ Stórstjörnur á borð við Will Smith, Kelly Clarkson og Tony Robbins hafa lýst yfir hrifningu sinni á leikhæfileikum Maddie-ar og hafa styrkt Feeding America-samtökin í hennar nafni.

Greinilega rísandi stjarna hér á ferð sem nýtir leikhæfileika sína til þess að vekja athygli á mikilvægu málefni. Ótrúlega flott og skemmtilegt!

Frétt frá Tanksgoodnews.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir