„Ég get ekki skammast mín fyrir neitt af þessu“

Páll Óskar Hjálmtýsson skilaði skömminni um helgina.
Páll Óskar Hjálmtýsson skilaði skömminni um helgina. mbl.is/Á​sdís Ásgeirs­dótt­ir

„Ég hef sofið mjög vært og er alveg pollrólegur í maganum yfir þessu og mér er bara létt. Það var þungu fargi af mér létt um leið og ég var búinn að ýta á send og sleppa tökunum af þessu,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson í viðtali við Morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun.

Páll tók sig til um helgina og skilaði skömminni þangað sem hún á heima þegar hann deildi nektarmyndum af sjálfum sér á samfélagsmiðla sína. Myndirnar hafði Palli sent í persónulegum skilaboðum á stefnumótaforritinu Grindr til aðila sem hann treysti til þess að halda fyrir sjálfan sig.

Auðvelt að villa á sér heimildir

„Fyrir svona ári síðan, rúmu ári, fæ ég fyrst spurnir af því að það séu einhverjar kynferðislegar myndir af mér í gangi á internetinu og ég svona vissi hvaðan á mig stóð veðrið vegna þess að fyrir einu og hálfu áru síðan þá man ég eftir sjálfum mér, ég er þarna inni á Grindr sem er svona gay útgáfa af Tinder, þetta er stefnumótaforrit. Inni á Grindr er nekt ekki leyfð í profile-mynd en svo þegar þú ert að tala við einhvern og ef samtalið fer á flug, og ég hef náttúrulega passað mig að fara frekar varlega inni á svona stefnumótaöppum, ég fer varlega og ég reyni að vanda mig við það að skoða samtalið, þú veist hvernig þetta gengur fyrir sig og hvernig þetta funkerar. Það er svo auðvelt að villa á sér heimildir inni á svona stefnumótaöppum. Það er ekkert mál að taka kannski heilt myndasafn frá einhverjum öðrum og pósa sem viðkomandi undir fölsku flaggi, deila myndum af sjálfum sér eins og þú sért að fara á eitthvert svaka trúnó og það var það sem gerðist,“ útskýrir Páll.

Maðurinn sem Páll Óskar talaði við fyrir einu og hálfu ári hafði komið mjög vel fyrir, talað svakalega góða íslensku og var vel máli farinn.

„Svo á öðrum degi þá stingur hann upp á því að fara að skiptast á myndum og hann sendir mér einhverjar þrjár myndir og ég sendi til baka þrjár myndir og nokkrum sekúndum síðar þá hvarf hann, eins og hann hefði blokkað mig eða það kom bara einhver melding „this profile is no longer available“. Þarna fékk ég hnút í magann, þarna leið mér eins og ég hefði bara hlaupið fyrsta apríl,“ segir Páll Óskar.

Hefur enga skömm gagnvart sjálfum sér í þessu máli

Hann segir að annað fólk geti látið sér þetta vera víti til varnaðar vegna þess að ekki sé hægt að botna í því hvað sumu fólki gangi til inni á svona forritum.

„Ég tek eftir því að þarna fara myndirnar á eitthvert flug og ég er látinn vita af því fyrir svona rúmu ári síðan og ég fékk skjáskot send af þessum myndum þá og þá kannaðist ég við, já þarna voru þær, þessar þrjár ljósmyndir sem ég sendi frá mér. Þannig að þetta er komið á flug. Svo ég hugsaði með mér: Nú er enginn að hóta mér, það er enginn að kúga mig neitt, það er enginn að ógna mér þannig, það er enginn sem hefur haft samband við mig og sagt: „Við erum með myndir undir höndum,“ með einhverjum ógnandi tilburðum. Það eina sem gerist er að ég tek eftir því að myndirnar fara á flug og þær poppa mikið upp á Messenger-spjalli inni á lokuðum síðum í lokuðu spjalli hjá fólki á Facebook og Snapchat. Ég hugsa með mér hvað á ég að gera? Á ég að skammast mín, finn ég fyrir einhverri skömm gagnvart sjálfum mér? Nei. Skammast ég mín fyrir að vera hommi, skammast ég mín fyrir að vera á Grindr, fyrir það hvernig ég lít út, eða að ég sé með rass, eða að ég vilji stunda kynlíf? Bara svarið við öllu ofangreindu er nei, ég get ekki skammast mín fyrir neitt af þessu, það kemur ekki til greina,“ segir hann.

Myndi ekki hika við að kæra

Páll segir að ef hann vissi hver viðkomandi aðili væri, sem hóf dreifingu myndanna, þá myndi hann ekki hika við að kæra hann vegna þess að nú geti hann gert það.

„Núna bara 17. febrúar síðastliðinn 2021, þá voru samþykkt á Alþingi lög um nákvæmlega þetta. Stafrænt kynferðisofbeldi heitir þetta og nú kom það fyrir mig. Ég kaus frekar að svara bara svona á móti með því að birta þessar myndir bara sjálfur í eigin mætti inni á mínum miðlum sem heita Facebook og Instagram og gera þar með þessi „vopn“ sem viðkomandi heldur að hann hafi á hendi, gera þessi „vopn“ hans algjörlega marklaus og valdalaus,“ segir hann.

Áður en Páll Óskar deildi myndunum hafði hann samband við vini sína og fjölskyldu og lét þau vita af því að hann væri að fara að setja myndirnar í loftið svo þeim myndi ekki bregða. Þegar þau sáu myndirnar segir Páll að viðbrögð þeirra hafi öll verið góð. Hann segist enn fremur nánast bara hafa fengið góð viðbrögð frá almenningi.

„Viðbrögðin voru öll bara „go Palli“ og nákvæmlega skila skömminni þangað sem hún á heima. Vegna þess að skömmin var aldrei hjá mér. Skömmin er aldrei hjá þeim sem treystir. Skömmin er hjá þeim sem brýtur traustið, brýtur trúnaðinn. Við vitum alveg að það eru margir sem hafa lent í þessu jafnvel verr heldur en ég og eru jafnvel 14 ára. Þannig að núna þá er bara gott að minna á það að lagaumhverfið er komið, þetta er hætt að vera grín sem þið geti deilt manna á milli og þá væntanlega hlegið að eða notað til háðungar innan einhverra hópa eða í saumaklúbbum. Þetta er hætt að vera grín, þetta er ólöglegt, þetta varðar við lög, lögin eru mjög skýr og einföld,“ útskýrir hann.

Fann til mikils léttis eftir að hann deildi myndunum 

Þá segist hann hafa fundið fyrir gríðarlegum létti eftir að hann deildi myndunum sjálfur. Það hafi greinilega íþyngt honum að hugsa til þess að einhver þarna úti hefði ímyndað vald yfir honum.

„Ég ákvað bara að taka þessa ákvörðun, í loftið með þetta, vessgú, njótið vel og fávitinn sem ég sendi þessar myndir í trúnaði á Grindr og er núna að reyna að dreifa þeim út um allt hann er væntanlega að reyna að fá mig til þess að skammast mín, eða reyna að niðurlægja mig á einhvern hátt eða smætta mig en ef hann er að reyna að fá mig til að skammast mín fyrir að lifa kynlífi þá er hann rúmlega 30 árum of seinn. Bara njótið vel og ég fann til mikils léttis þótt það væri ekki nema bara fyrir mig. Ég fann líka að þetta var búið að íþyngja mér, það var búið að íþyngja mér að einhver annar þarna úti hefði þetta ímyndaða vald yfir mér. Þetta gengur út á völd. Ógna manni fyrir eitthvað sem viðkomandi heldur að maður skammist  sín fyrir, en þar er hann að gelta upp við rangt tré,“ segir hann.

Viðtalið við Pál Óskar má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir