Endurunnin kort sem verða að plöntum

Hægt er að velja á milli myntu, graslauks, basilíku og …
Hægt er að velja á milli myntu, graslauks, basilíku og timjan og ættu flestir að geta fundið krydd við sitt hæfi. Skjáskot/Instagram

Fiore Iceland er glænýtt og þrusuflott íslenskt verkefni sem sérhæfir sig í að skapa handgerð kort úr endurunnum pappír.

Það sem er stórmerkilegt við þessi kort er að eftir notkun er hægt að rífa þau, planta þeim og fá sína eigin kryddjurt. Ég spjallaði aðeins við þann skapandi hóp sem stendur á bak við þetta skemmtilega verkefni.

Hópinn mynda þau Katrín, Opale, Guðrún, Fannar, Jóel og Marín. Þau eru öll saman í Tækniskólanum á hönnunar- og nýsköpunarbraut. Hugmyndin að Fiore Iceland kviknaði þegar þau voru saman að „brainstorma“ að verkefni sem gæti verið umhverfisvænt og hugsuðu hvernig hægt væri að endurnýta hluti sem við notum í daglegu lífi.

Þar sem þau eru á hönnunarbraut nota þau mikinn pappír í daglegri vinnu og þau vildu endurnýta hann á einhvern hátt. Þannig ákváðu þau fyrst að búa til endurnýttan pappír í alls konar litum. Þeim fannst það þó ekki vera nógu spennandi og frumlegt og fundu því nýja leið til þess að setja fræ í pappírinn og búa svo til tækifæriskort úr honum sem viðtakandi getur svo gróðursett.

Þannig bjóða kortin upp á nýtt líf. Hægt er að velja á milli myntu, graslauks, basilíku og timjan og ættu flestir að geta fundið krydd við sitt hæfi. Algjörlega frábært og ótrúlega frumlegt.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir