Lærði japanska stafrófið til að svindla á prófum

Elísabet Hulda Snorradóttir lærði japönsku þegar hún var 13 ára.
Elísabet Hulda Snorradóttir lærði japönsku þegar hún var 13 ára. Ljósmynd/Arnór Trausti

„Það gengur bara voða vel hérna, veðrið er búið að vera mjög gott og ég er búin að vera að fylgjast með yfir páskana hvað það er kalt hjá ykkur og ég er afskaplega ánægð að vera hér,“ segir Elísabet Hulda Snorradóttir, Miss Universe Iceland-sigurvegari, sem er um þessar mundir á Miami og bíður þess að taka þátt í Miss Universe-keppninni sjálfri.

Elísabet var í viðtali við Síðdegisþáttinn þar sem hún ræddi við þau Loga Bergmann og Evu Ruzu um keppnina sjálfa og trompið sem hún telur sig hafa. Þessa dagana er Elísabet að búa sig undir keppnina og segir hún að fegurð sé alls ekki það eina sem skipti máli.

Leita að manneskju sem skilar einhverju af sér

„Það eru spurningar sem maður verður dæmdur á. Þessi „sætleiki“ hefur kannski pínulítil áhrif á eitthvað en annars er þetta hversu vel þú getur talað og hversu fróð þú ert um samfélagið í dag og þú verður að vera manneskja sem er með almennilegan persónuleika. Þú verður að vera með skoðanir á hlutum, vita hvað er í gangi í samfélaginu og geta talað almennilega um það á sviði. Það er það sem þau eru að leita að núna. Manneskja sem fólk tengir við og líka manneskja sem hefur einhverju að skila af sér,“ útskýrir Elísabet.

Lærði japanska stafrófið þegar hún var 13 ára

Trompið sem Elísabet telur sig hafa er það hversu alþjóðlegan bakgrunn hún hefur.

„Ég myndi segja að tungumálin sem ég tala sé mitt besta, ég er að læra kínversk fræði í háskólanum og byrjaði að læra japönsku þegar ég var 17 ára og kóreskan kom eftir það. Þannig að ég myndi segja að mitt tromp hérna væri að ég er með svona voða alþjóðlegan bakgrunn sem mun gagnast mér vel að mínu mati,“ segir hún.

Áhugi Elísabetar á tungumálum hófst þegar hún var þrettán ára að læra fyrir próf.

„Þá lærði ég japanska stafrófið út af því að ég ætlaði að nota það til þess að hjálpa mér að svindla í prófum,“ segir hún og viðurkennir að í kjölfarið hafi það heillað hana hvað tungumálið og landið hafi verið frábrugðið Íslandi.

Viðtalið við Elísabetu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir