„Þú verður að efast um sjálfan þig“

Hugleikur Dagsson
Hugleikur Dagsson ljósmynd/aðsend

„Já það var rosalega góð hugmynd þá stundina. Ég fór haustið 2019 eða eiginlega bara í desember, bara korter í Covid, og fór þangað einmitt til þess að stunda uppistand,“ segir Hugleikur Dagsson sem flutti til Berlínar fyrir rúmu einu og hálfu ári.

Hugleikur er kominn heim til Íslands í smá frí en viðurkennir þó að hann hafi ekki bókað sér miða til baka alveg strax. Hann segist hafa flutt til Berlínar til þess að stunda uppistandið og borða á veitingahúsum. Planið hafi hins vegar allt farið í vaskinn tveimur mánuðum eftir að hann flutti út.

Ástandið í Berlín mjög leiðinlegt

„Maður var búinn að búa þarna í tvo, þrjá mánuði þegar ég gat hvorki farið á svið né út á veitingahús. Og Berlín er ekkert sérstaklega skemmtileg borg þegar það eina sem maður hefur er gluggaveðrið,“ segir Hugleikur og viðurkennir að ástandið í Berlín sé mjög leiðinlegt.

„Ég fer bara út til að skokka eða kaupa í matinn. Stundum labba um og skoða bæinn en það er í fyrsta lagi mjög mjög leiðinlegt. Núna er maður að passa sig líka hvað maður talar um meira að segja vegna þess að ég var að fatta það að þegar maður hittir fólk á förnum vegi og fólk segir: „Jæja, hvað er að frétta?“ Það er hræðileg spurning. Ekki spyrja neinn hvað er að frétta þessa dagana. Vegna þess að svarið er bara: „Það er ekki neitt að frétta,““ segir Hugleikur.

Hugleikur segir uppistandssenuna í Berlín skemmtilega en hún geti verið erfið fyrir byrjendur.

„Ég var svo heppinn að hafa byrjað á Íslandi og það var ákveðið forskot, því ég var náttúrlega frægur fyrir spýtukarlana mína þannig að fólk gerði ráð fyrir því að ég væri að fara að segja eitthvað fyndið,“ útskýrir hann.

Síkópatar trúa á sjálfan sig

Hugleikur segir mikilvægt fyrir fólk að efast um sjálft sig. Það sé fyrst þá sem það gagnrýni sjálft sig og reyni að bæta.

„Alltaf áður en ég fór á svið þá hélt ég bókstaflega að ég myndi skíta á mig. Ég var byrjaður að skjálfa og var með rosalegan kvíðahnút á fleiri en einum stað í líkamanum og ég hugsaði bara: „Af hverju er ég að þessu? Er ég masókisti? Af hverju er ég að setja mig í þær aðstæður að líða svona?“ Og svo fer ég á svið og segi eitthvað og allir hlæja og ég bara: „Aah, nú man ég af hverju ég er að þessu.“ Vegna þess að það er ógeðslega gaman að vera uppi á sviðinu, en þessar örfáu mínútur fyrir sviðið það er bara verðið sem maður borgar fyrir að fá að fara upp á svið,“ segir hann og bætir við: „Ég hef alltaf litið á það sem svo að efast um sjálfan sig, krakkar í dag eru alltaf að segja: „Trúðu á sjálfan þig!“ Og ég er bara: „Ekki gera það.“ Síkópatar trúa á sjálfa sig. Þú verður að efast um sjálfan þig því þá ertu alltaf að gagnrýna sjálfan þig og stanslaust að reyna að gera þig betri. Þannig að þegar ég fer upp á svið og ég fæ svona 80% hlátur þá er ég bara að einblína á þessi 20%: „Ókei, hvernig klúðraði ég þessu?“ Enginn skynjaði neitt klúður nema ég, sem gerir það að verkum að ég set eitthvað aukalega inn í næsta performans.“

Viðtalið við Hugleik má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir