Má ekki fegra Onlyfans: „Þetta er ekkert annað en klám“

Katrín Edda segir mikilvægt að ræða líka um neikvæðu hliðar …
Katrín Edda segir mikilvægt að ræða líka um neikvæðu hliðar Onlyfans. Katrín Edda

Umræðan um síðuna Onlyfans hefur vakið mikla athygli á Íslandi og þá sérstaklega eftir að Edda Falak og Fjóla Sigurðardóttir ræddu við Klöru Sif Magnúsdóttur, Ingólf Val Þrastarson og Ósk Tryggvadóttur í hlaðvarpsþáttunum Eigin konur.

Katrín Edda samfélagsmiðlastjarna ræddi um málefnið á instagramsíðu sinni í gær og hefur hún fengið mikil viðbrögð. Þar gagnrýnir Katrín Edda umfjöllunina og segir mikilvægt að fjalla líka um neikvæðar hliðar Onlyfans.

Onlyfans-síðan hófst fyrst sem ákveðin áskriftarleið fyrir framleiðendur sem vildu gefa út sitt eigið efni en fljótlega þróaðist síðan í allt aðra átt. Í dag er hún orðin vettvangur fyrir fólk sem útbýr klámefni og selur.

Bara verið að tala um jákvæðar hliðar Onlyfans

„Hver og einn ákveður hvað hann vill gera og hvað hann vill selja en það kemur þessi pressa og það er það sem mér finnst vanta í þessa umræðu. Það er í rauninni bara verið að tala um jákvæðar hliðar Onlyfans eins og þetta sé í rauninni öruggur vettvangur sem þú kemur inn á. Þú byrjar að setja inn saklausar nektarmyndir af sjálfri þér, sem kannski í rauninni sýna ekki einu sinni andlitið, en síðan kemur þessi pressa bæði frá stjórnendum síðunnar sem og frá öðrum áskrifendum um að gefa aðeins meira af þér og allt í einu ertu farin að gera grófari myndbönd og myndbönd sem sýna andlitið á þér og í rauninni byrja þessi mörk, sem þú vildir gera mjög skýr í byrjun, að verða óljós og þú ert farin út í virkilega gróft klám,“ segir Katrín Edda í viðtali við Morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun.

Katrín Edda ákvað að tala um málefnið á samfélagsmiðli sínum eftir að hún hlustaði á seinni þáttinn í hlaðvarpinu en þar komu þau Ingólfur og Ósk fram og ræddu um sína reynslu.

Vitleysa að segja að konur þurfi að selja sig 

„Þegar ég var að hlusta á þessa umræðu fannst mér allt of mikið verið að tala um bara jákvæða hluti; jákvæðu hliðarnar á Onlyfans eins og þetta væri bara frábær vettvangur ef mann vantaði pening. Ég tala nú ekki um að það var líka sérstaklega nefnt að fyrir konur sem í rauninni „þyrftu“  selja sig innan gæsalappa þá væri þetta lausnin. En það er náttúrlega bara vitleysa að segja að konur þurfi að selja sig. Það þarf engin kona að selja sig. Þetta snýst allt um peninga. Þetta er selt þarna, fannst mér í þessari umræðu eins og þetta væri í rauninni bara eitthvað sem þér fyndist gaman að gera. Þú værir hvort eð er að gera þetta! Það var líka sagt að það væru hvort eð er allir að taka upp kynlíf sitt þannig að maður gæti alveg eins selt það. Þarna líka, bæði stelpan með 15 milljónirnar, hún talar um að þegar hún sé spurð hvort hún geri einhvern tímann eitthvað sem henni finnst óþægilegt að, já henni finnst nú ekki þægilegt þegar það er sett eitthvað upp í endaþarminn á henni en hún hafi nú samt gert það til þess að hafa almennilegt „content“ og ekki missa „followers“. Líka í seinna viðtalinu, þá segir stúlkan líka frá því að oft sé hún nú ekki til í að útbúa svona efni og oft sé hún með sár að neðan í klofinu ef það er búið að vera mikið að gera en samt verði hún að peppa sig í gang til að svara eftirspurninni,“ segir Katrín.

Sorglegt að stúlkur séu að gera eitthvað sem þeim þyki óþægilegt

Katrín segir að sér þyki ótrúlega sorglegt að stúlkur séu að gera eitthvað sem þeim þyki óþægilegt fyrir peninga og að þær finni utanaðkomandi pressu um að þær verði að halda þessu við.

„Mér þykir vænt um fólk, mér þykir vænt um konur, mér þykir mjög vænt um femínisma. En þarna finnst mér við komin yfir einhver önnur mörk. Þetta snýst alls ekki um að dæma einstaklinga sem eru á þessum síðum og ég sagði það einmitt að ég myndi ekki dæma vændiskonur sem eru í vændi en það þýðir ekki að ég myndi einhvern tímann hvetja konur til að fara áfram í vændi. Vegna þess að það er bara staðreynd, og Stígamót hafa líka sagt það og komið fram og talað um þessar síður, að afleiðingar af konum í klámiðnaðinum og í vændi eru þær sömu og fyrir konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi,“ segir hún.

Mikilvægt að tala líka um neikvæðu hliðarnar

Katrín Edda er sjálf með mjög margar ungar konur sem fylgja henni á samfélagsmiðlum og segir hún að sér þyki það sorglegt að þarna sé önnur kona með margar ungar konur sem fylgi henni og hlaðvarpinu sé beint til ungra kvenna. Þá finnst henni mjög mikilvægt að talað sé líka um hina hliðina.

„Neikvæðu hliðarnar á Onlyfans líka. Þetta efni er að fara að vera þarna að eilífu, að eilífu. Mörkin sem þú settir í byrjun verða líklega óljós, þú munt finna fyrir pressu, þú munt fá áreiti frá alls konar. Þetta er klámiðnaður og það má ekki vera að „leibela“ þetta sem glamúrmódel eins og er verið að gera í Svíþjóð, kalla þetta glamúrmódel eða glamúr-blogging því þetta er ekkert annað en klám. Og það er það sem vantaði mjög mikið, fannst mér, í þessa umræðu að þetta er klám og þetta er að fara að vera þarna að eilífu og þetta mun hafa mjög sterkar afleiðingar,“ segir Katrín.

Ungar stúlkur tala um easy money

Katrín segist hafa fengið mörg hundruð skilaboð síðan hún opnaði umræðuna í gærkvöldi og margar konur hafi látið hana vita að þær vissu um ungar stúlkur, allt niður í þrettán ára, sem hafi verið að tala um síðuna.

„Um að þetta væri örugglega mjög sniðugt, skemmtilegt „easy money“ og ætluðu að fara að kaupa sér fatnað í Blush til að fara að útbúa efni. Og þetta eru ungar stelpur og ég talaði líka sérstaklega um það vegna þess að þegar ég var yngri þá var ég  ég er rosalega svona ýkt og margir segja kannski ofvirk og ég er núna 32 ára. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvernig ég var þegar ég var 13, 14, 15, 16 ára, ég var gjörsamlega snar. Ég var stjórnlaus. Miðað við hvernig ég hugsaði þegar ég var yngri hefði mögulega alveg verið hægt að mana mig upp í eitthvað svona ef ég hefði bara heyrt um þetta; bara einhvern veginn svona, „easy money“ og bara smá mynd af brjóstunum! Þetta er það ekki,“ segir hún.

Hún segist alls ekki vera að dæma einstaklingana sem séu á síðunni en segir að það sé mjög mikilvægt að tala líka um neikvæðu hliðarnar og afleiðingarnar af því að vera inni á síðum sem þessari.

Viðtalið við Katrínu Eddu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir