Fjöldi íslenskra barna eignast ekki hjól

Það er dýrt að ala upp börn og hjá mörgum …
Það er dýrt að ala upp börn og hjá mörgum eru hjól munaðarvara. Morgunblaðið/Ernir

Barnaheill stendur að hjólasöfnun tíunda árið í röð og vilja þau að sem flest börn geti notið þess að hjóla í sumar. Matthías Freyr Matthíasson, verkefnisstjóri hjólasöfnunarinnar, segir í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar að því miður sé staðreyndin sú að fjöldi barna á Íslandi búi við þannig aðstæður að þau hafi ekki tök á því að eignast hjól.

„Staðreyndin er bara því miður sú að það er fjöldi barna og ungmenna á Íslandi búa við þannig aðstæður að þau hafa ekki tök á því að eignast hjól. Þannig að Barnaheill tók þetta verkefni upp fyrir tíu árum að biðja almenning um að henda í raun og veru gömlum hjólum ekki í brotajárn heldur að fara með þau í þar til gerða gáma hjá Sorpu og við tökum svo hjólin inn. Lagfærum þau og útdeilum þeim svo í samstarfi við félagsþjónustu víðs vegar um landið,“ útskýrir Matthías.

Óska eftir sjálfboðaliðum til að gera upp hjól

Á hverju ári óska Barnaheill eftir sjálfboðaliðum til þess að koma og aðstoða við að gera upp hjólin sem þau fá. Hann segir þau hafa notið velvilja fólks undanfarin ár og hafa meðal annars fyrirtæki, hjólaklúbbar, starfsmannafélög og almenningur mætt til þess að aðstoða.

„Því miður er það bara þannig að við höfum á þessum tíu árum útdeilt yfir 2.500 hjólum og það voru 350 hjól sem voru afhent í fyrra og við sjáum ekkert minni þörf á því. Það má alveg auka, fólk má alveg fara að vera duglegra við að losa sig við hjól. Við eigum ekki lager og þetta er í öllum móttökustöðvum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann.

Barnaheill taka við hjólum í öllum stærðum og gerðum, heilum og biluðum og má nálgast upplýsingar um verkefnið á vefsíðu Barnaheilla og á Hjólasöfnun Barnaheilla á Facebook.

„Okkur vantar sjálfboðaliða til að laga hjólin og það veitir ekkert af. Við erum komin með yfir 100 hjól í hús nú þegar og búið að gera við um 70 hjól,“ segir hann.

Fyrsta almenna úthlutunin fór af stað á miðvikudaginn síðast liðinn og eru þau hægt og rólega að vinna sig upp í það að geta útdeilt fleiri hjólum og þurfa þau því fleiri hendur.

Viðtalið við Matthías má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir