Börn og eldri borgarar sameinast í tónlist

Börn og eldri borgarar sameinast með tónlist.
Börn og eldri borgarar sameinast með tónlist. Ljósmynd/IMM

Verkefnið Together With Music í Bretlandi berst gegn einmanaleika með því að notast við sígild og skemmtileg lög til þess að sameina kynslóðir í gegnum netið.

Lög á borð við Cecelia með Simon og Garfunkel og hið tímalausa Over The Rainbow eru meðal þeirra sem hafa verið sungin og hefur þetta verkefni sameinað þúsundir eldri borgara við ungt fólk.

Verkefnið var sett af stað í desember síðastliðnum og stöðugt fleiri sem skrá sig. Margir hafa kynnst nýjum einstaklingum af öðrum kynslóðum og myndað falleg vinasambönd í gegnum sönginn.

Eftir skráningu er fólk sett inn í litla sönghópa í gegnum netið þar sem börn og eldra fólk eru saman í hópi. Hóparnir byrja á að deila sínum uppáhaldslögum, þar sem börnin flytja lögin fyrir eldri borgara og öfugt.

Tónlistin verður svo að umræðukveikju fyrir breiðara samtal við aðra hópa og samtökin Intergenerational Music Making, eða IMM, halda utan um verkefnið. Charlotte Miller, forstjóri IMM, segir að yfir 100 tengingar hafi nú þegar myndast þar sem hópar eru í stöðugu og góðu sambandi og ná að blómstra með því að deila og ræða um tónlist, menningu, von og jákvæðni.

Meðal annars eiga eldri borgarar á dvalarheimilinu Kingfisher í Surrey, Bretlandi, í góðu sambandi við grunnskólann Durlston Court þar sem þau hafa skipst á útgáfum af laginu Cecilia.

Aðrir hafa samið sín eigin lög byggð á reynslusögum. Martin Green, forstjóri Care England, segir að verkefnið muni veita þúsundum einstaklinga gleði og hlýju á erfiðum tímum og hjálpa mörgum sem hafa glímt við einangrun og einmanaleika.

Ótrúlega skemmtilegt og svona getur tónlistin verið magnað afl!

Frétt frá: PositiveNews.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir