Neitaði að fljúga með konu við stýrið

Bobby Fischer.
Bobby Fischer. Morgunblaðið/RAX

„Já þetta var svolítið merkilegt. Hann var einhvern veginn búinn að bíta þetta í sig,“ segir Páll Magnússon í viðtali við þau Evu Ruzu og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum þegar hann útskýrði það hvers vegna taflmeistarinn Bobby Fischer vildi einungis tala við hann sjálfan.

Ferðin eftir Bobby Fischer var mjög merkileg en Páll Magnússon fór út og sótti hann á sínum tíma og kom með hann heim til Íslands, enda gerðist Bobby Fischer íslenskur ríkisborgari.

„Þegar ég bað hann um að gefa mér skýringu á því að þá sagði hann mér í símtali sem ég átti við hann þegar hann var í fangelsinu í Japan áður en ég tók við hann viðtal fyrir Bylgjuna á sínum tíma, þá sagði hann mér að hann ætti á bandi eða hefði fylgst með einhverjum þremur eða fjórum viðtölum sem ég hefði tekið á sínum tíma við Garry Kasparov, fyrrverandi heimsmeistara og eftirmann hans í stóli heimsmeistara, og hann orðaði þetta einhvern veginn þannig að honum hefði þótt það benda til þess  ég væri ekki fullkominn fáviti,“ útskýrir Páll enn fremur.

Japönsk stjórvöld ætluðu sér ekki að leyfa neitt viðtal

Páll fór tvær eða þrjár ferðir út til Tokyo til þess að freista þess að taka sjónvarpsviðtal við Fischer í fangelsinu en í hvert skipti kom eitthvað upp á af hálfu fangelsisyfirvalda og hleyptu þau honum ekki inn.

„Síðan kom skýringin auðvitað að japönsk stjórnvöld ætluðu sér ekki að leyfa neitt viðtal við hann út af því að þetta var þá orðin milliríkjadeila við Bandaríkin,“ segir Páll.

Fischer sat þá í fangelsi fyrir að hafa teflt við Spassky, hinn sama og hann tefldi við einvígið mikla í Reykjavík árið 1972. Bandaríkjamenn litu svo á að Fischer hefði verið að rjúfa viðskiptabann sem Bandaríkjamenn hefðu sett á Júgóslavíu, gerðu allar hans eignir upptækar og lýstu eftir honum sem alþjóðlegum glæpamanni.

Bobby Fischer (t.h.) og Boris Spassky (t.v.). Óopinbert heimsmeistaramót í …
Bobby Fischer (t.h.) og Boris Spassky (t.v.). Óopinbert heimsmeistaramót í skák 1992.

„Síðan var hann handtekinn í Japan þegar hann kom þangað, samkvæmt þessari alþjóðlegu handtökuskipun sem bandaríkin höfðu gefið út og þá vildu Bandaríkjamenn fá hann framseldan hið fyrsta. En það var hins vegar þá sem íslensk stjórnvöld, þetta var nú eiginlega bara einkaframtak Davíðs Oddssonar á þeim tíma, en Íslendingar höfðu með einhverjum hætti samband við Japani og báðu þá að bíða því að hin formlega staða Fischers var að breytast og allt í einu var hann orðinn íslenskur ríkisborgari og á þeim grundvelli höfnuðu Japanir framsalskröfu Bandaríkjamanna og þá var meiningin að koma honum til Íslands,“ útskýrir Páll.

Neitaði að fljúga beint til Keflavíkur

Eftir að Páll var kominn út og leiðin lá heim til Íslands neitaði Fischer að fljúga beint til Keflavíkur vegna þess að hann taldi að þar væru Bandaríkjamenn með völd. Hann var því alveg sannfærður um það að hann yrði handtekinn um leið og hann kæmi út úr vélinni.

„Hann var alveg sannfærður um það, hann var búinn að skilgreina Keflavíkurflugvöll sem bandaríska herstöð, var búinn að finna það út og þar færu Íslendingar ekki með neitt vald og ef vélin lenti með hann þar þá myndi CIA bíða þar eða FBI sem voru reyndar búnir að lýsa eftir honum, og ræna honum. Þannig að hann var búinn að finna þetta út og þess vegna átti sem sagt einkaþota að lenda í Kaupmannahöfn til þess að hann gæti síðan lent á Reykjavíkurflugvelli en ekki Keflavík. Hann var mikill samsæriskenningamaður. Hann talaði um að júðarnir væru alls staðar, gyðingarnir væru alls staðar og þeir væru á eftir honum sem var svolítið sérkennilegt vegna þess að hann var gyðingur sjálfur, að minnsta kosti í aðra ættina,“ segir Páll.

Bobby Fischer.
Bobby Fischer. Morgunblaðið/Sverrir

Neitaði að fljúga með konu við stýrið

Þegar Fischer og Páll voru svo loksins komnir um borð í vélina tóku á móti þeim kona og maður bæði klædd í einkennisbúning flugmanna. Konan býður Fischer vatn að drekka og hann segist ekki hafa vitað til þess að það yrðu flugfreyjur um borð. Páll segir að konan hafi brosað og tilkynnt Fischer að hún væri flugstjóri. Þá hafi Bobby staðið upp og sagst vera farinn.

„Ég er farinn, sagði hann og ætlar að storma út úr vélinni og segist ekki fljúga með vél ef það er kona við stýrið. Þá kemur mikið fát á mannskapinn en á þessu augnabliki var ég orðinn svolítið pirraður á þessum dillum öllum í honum af því að þetta hafði tekið á talsvert þetta ferðalag allt saman. Þannig að ég segi svona við hann með nokkrum þjósti: „Farinn, hvert ertu farinn? Ætlarðu að vera hér bara einn eftir á flugvellinum, það er enginn hér.“ Þá segir hann: „Já, ég fer ekki ef það er kona við stýrið.“ „Og hvað viltu að ég hringi á leigubíl?“ segi ég. „Þú ert þá einn hérna, þú ferð þá bara út úr vélinni og stendur þá bara hér á flugbrautinni og það er kannski rétt að ég hringi á leigubíl.“ Þá leysti konan þetta nú með því að segja: „Heyrðu, ég flaug nú vélinni hingað til Svíþjóðar sem þýðir það að næsti maður á vakt er kallinn og hann flýgur henni til Reykjavíkur.“ Og þá róaðist hann og fór að syngja Prestley-lög,“ segir Páll.

Margt í Queens Gambit vísar til upplifana Fischers

Páll segir að margt af því sem fram kemur í Netflix-þáttunum Queens Gambit sé byggt á því sem Fischer upplifði sjálfur. Til að mynda ákveður aðalpersóna þáttanna að læra rússnesku áður en hún fer til Rússlands vegna þess að hún taldi að Rússar væru að svindla á leikjunum með því að tala saman á rússnesku í trausti þess að enginn skildi þá.

„Þetta var nákvæmlega það sem Fischer gerði, hann lærði rússnesku vegna þess að hann taldi Sovétmenn alltaf vera að svindla á sér,“ segir Páll.

Viðtalið við Pál og þessa stórskemmtilegu sögu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir