Gleðiskrudda sem dreifir jákvæðni

Yrja og Marit.
Yrja og Marit. Skjáskot/Instagram-síða Gleðiskruddunnar.

Góðan og gullfallegan daginn. Það er svo skemmtilegt að rekast á eitthvað jákvætt og uppbyggilegt á samfélagsmiðlum. Ég rakst á instagramaðganginn Gleðiskrudduna sem veitti mér mikla gleði.

Forsprakkar framtaksins eru þær Marit Davíðsdóttir og Yrja Kristinsdóttir og ég spjallaði aðeins við þær um þetta skemmtilega verkefni.

Gleðiskruddan var lokaverkefni Maritar og Yrju í jákvæðri sálfræði á meistarastigi árið 2020. Þeim þótti vanta fræðslu og verkfæri fyrir börn og foreldra þeirra til að nota við að auka sjálfsþekkingu, trú á eigin getu, bjartsýni og vellíðan.

Undirbúningurinn hefur aukið vellíðan þeirra

Þær vildu kynna börnum hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði og bjuggu því til Gleðiskrudduna  dagbók fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Dagbókin hefur því verið í vinnslu síðan í janúar 2020 og mikið verið lagt í hana. Að þeirra sögn hefur undirbúningur dagbókarinnar aukið vellíðan þeirra beggja á þessum skrítnu tímum.

Dagbókin verður prentuð út í takmörkuðu upplagi snemmsumars 2021. Á dögunum var opnuð instagramsíða fyrir Gleðiskrudduna þar sem þær deila ýmsum fróðleik tengdum efni bókarinnar.

Síðastliðna helgi vakti instagramsíðan mikla athygli þegar fylgjendur voru beðnir að deila jákvæðum fyrirmyndum sínum  en að þeirra sögn er einn þáttur í því að efla trú á eigin getu og byggja upp jákvæða sjálfsmynd að finna sér jákvæðar fyrirmyndir sem hvatningu.

Hlýnaði um hjartarætur yfir öllum náungakærleikanum

„Við höfðum varla undan að deila öllum uppástungunum sem okkur bárust. Okkur hlýnaði sannarlega í hjartastað yfir öllum náungakærleikanum og góðvildinni sem við fundum fyrir,“ segja þessar flottu konur.

Þær eru sannfærðar um að Gleðiskruddan muni veita börnum og ungmennum verkfæri sem geta nýst þeim í að takast á við það mótlæti sem þau verða fyrir á lífsleiðinni á sem uppbyggilegastan máta.

Gleðiskrudduna má finna bæði á Instagram og Facebook. Þar er að finna bæði fræðslu og fróðleik sem nýtist fólki á öllum aldri. Einnig hafa þær opnað vefsíðuna glediskruddan.is en þar má finna upplýsingar um dagbókina ásamt námskeiðum og fyrirlestrum sem eru í boði.

Ótrúlega skemmtilegt verkefni hér á ferð sem dreifir jákvæðni og gleði. Vel gert Gleðiskrudda!

mbl.is

#taktubetrimyndir