Hefur alltaf langað að gefa út barnaplötu

Ljósmynd/Samsett

Foreldrar fagna þegar nýjar barnaplötur líta dagsins ljós. Á dögunum gaf Alexander Freyr Olgeirsson út plötuna „Út í geim og aftur heim“ sem er aðgengileg á YouTube og Spotify.

„Þetta er geimævintýri blandað saman við lög. Þetta er saga,“ útskýrir Alexander í viðtali við Helgarútgáfuna.

„Þetta er svona næstum því bara lag og leikþáttur, skipt upp öll platan, og ég fer þarna með hlutverk Ofur-Ólafs og Karitas Harpa hún talar og syngur fyrir Geimgerði,“ segir Alexander enn fremur.

Alexander segir að sig hafi alltaf langað að gefa út barnaplötu vegna frelsisins sem býr í því að bulla og búa til eitthvað skrítið.

„Svo á ég barn sjálfur og maður er búinn að hlusta á þetta allt mörgum sinnum og bara gaman að bæta við. Þetta er líka svona falinn markhópur af því að maður þarf eiginlega að markaðssetja að foreldrum eða að börnum í gegnum foreldra,“ segir hann.

Búin að afskrá þrjú lög

Dóttir Alexanders hjálpaði honum við gerð plötunnar og segir hann hana hafa verið mjög hreinskilna.

„Hún er alveg búin að afskrá þrjú lög hjá mér sem henni fannst bara ekki skemmtileg og ég er alveg sammála því. Maður er kannski að halda í einhver lög sem eru ekkert góð. Hún er bara hreinskilin og segir nákvæmlega það sem hún vill,“ segir hann.

Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að fá síður úr litabók með því að hafa samband á facebooksíðu Út í geim og aftur heim en Alexander segir tilvalið fyrir börn að hluta á plötuna og lita á sama tíma.

Viðtalið við Alexander má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir