Greiddi trúlofunarhring fyrir ókunnugan mann

Shaq greiddi fyrir trúlofunarhring sem ókunnugi maðurinn var að kaupa.
Shaq greiddi fyrir trúlofunarhring sem ókunnugi maðurinn var að kaupa. Skjáskot/Instagram

Stjörnufréttir Evu Ruzu:

Körfuboltagoðsögnin Shaq er ekki bara góður með körfuboltann, heldur er hann líka þekktur fyrir að vera einstaklega góður maður.

Hann gerði sér lítið fyrir um helgina og borgaði trúlofunarhring fyrir ókunnugan mann. Shaq var staddur í skartgripabúð að kaupa eyrnalokka, þegar hann heyrði út undan sér að maður var að semja um greiðslur fyrir trúlofunarhring fyrir „vonandi verðandi“ unnustu. Shaq gekk að manninum og bauðst til að borga.

Shaq vildi nú ekki gefa upp hvað hringurinn kostaði, en hann sagði þó að í hans heimi hefði hann ekki verið dýr. Sem þýðir að fyrir okkur, sótsvartan almúgann, hefur hann kostað heilan helling.

Shaq er þekktur fyrir að rífa upp veskið fyrir fólk, og ekki er langt síðan hann borgaði sófasett fyrir konu í húsgagnabúð. Konan á einhverfa dóttur og sagði Shaq að þetta hefði verið það minnsta sem hann gæti gert. Konan hefði um nóg annað að hugsa með dóttur sína.

Shaq sagði eitt sinn í viðtali að það eina sem hann vildi fá út úr lífinu væri að gleðja aðra, og þessi stóri brosmildi risi er svo sannarlega að gera það.

Frétt frá TMZ.

mbl.is