Flutti í foreldrahús í ár: „Þetta var bara svona okkar saga“

Kristjana Arnarsdóttir.
Kristjana Arnarsdóttir. mbl/Arnþór Birkisson

Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á Rúv og Gettu betur-spyrill, er þessa dagana að vinna í því að taka upp úr kössum og flytja aftur heim til sín eftir að hafa búið í heilt ár heima hjá tengdaforeldrum sínum og foreldrum.

Ástæðan fyrir flutningunum var sú að Kristjana ásamt kærasta sínum, atvinnugolfaranum Haraldi Franklín Magnús, ætlaði sér að flytja til Spánar og búa þar í nokkur ár. Parið ætlaði að flytja um miðjan mars árið 2020 eftir að Gettu betur myndi klárast. Ekkert varð þó úr þeim plönum eftir að Covid 19 fór af stað og endaði parið því á því að vera búið að leigja íbúðina sína út og þurfa að flytja aftur í foreldrahús.

„Þarna fyrir jólin 2019 vorum við búin að ákveða að 2020 ætluðum við bara að svona, jæja nú sláum við þessu bara upp í smá kæruleysi förum út. Af því  kærastinn minn er nú atvinnugolfari og að vera golfari á Íslandi er kannski ekki „ídeal“, það er betra að vera golfari á Spáni. Þannig að við vorum búin að ákveða að slá þessu upp í að hann var kominn inn á sterkari mótaröð og bara „nú fer ég með þér og verð bara kylfusveinn og við förum á mótin og ég læri spænsku og fáum okkur tapas og drekkum rauðvín og verum í kósí“. En svo bara frestaðist þetta alltaf um viku og viku og viku og allt í einu vorum við búin að vera allan þennan tíma heima hjá foreldrum okkar,“ útskýrir Kristjana í viðtali við Síðdegisþáttinn.

Búið að ganga á ýmsu

Kristjana slær þó á létta strengi og segir atburðarásina vera þeirra Covid-sögu.

„Eins og ég horfi á þetta, fólk er búið að vera að glíma við alls konar og þetta er búið að vera hundleiðinlegt fyrir alla og það er bara þannig. Við erum bara einn hluti af þessu stóra mengi sem er búið að vera að glíma við Covid og þetta var bara svona okkar saga. Við ætluðum þvílíkt að slá þessu upp í eitthvert „hehe“ og bara skella okkur út og hafa gaman og fyrir vikið fengum við bara að vera eins og unglingar á uppeldisheimilunum okkar. Sem betur fer eigum við frábær sett af foreldrum svo þetta gekk bara furðu vel. En við reyndum að komast heim á gamlárskvöld og vorum læst úti og ég þurfti að skríða inn um gluggann 31 árs gömul og þetta var allt svona. Þannig að það er ýmislegt búið að ganga á en við erum allavega komin á lokaáfangastaðinn aftur,“ segir hún.

Kristjana og Haraldur héldu plönum sínum alltaf opnum í upphafi faraldursins og bjuggust við því að komast út. Fljótlega kom þó í ljós að af því yrði ekki en hún segir þó að þau hafi skellt sér saman út í þrjá mánuði. Hún viðurkennir að þrátt fyrir að það hafi verið notalegt að búa í foreldrahúsum hafi hún hlakkað til að flytja aftur heim til sín.

„Mómentið þegar ég þurfti að skríða inn um gluggann heima hjá mér þá fékk ég svona „nei nú fer þetta að verða gott, þetta er komið, ég þarf að fara að koma mér heim, ég er orðin þrjátíu ára“, segir Kristjana og hlær.

Nú er Haraldur úti á meðan hún er ein að sjá um að flytja þau aftur inn í gömlu íbúðina. Kristjana segir það ekki mjög spennandi að flytja aftur á sama staðinn enda sé hún bara að raða húsgögnunum aftur á sama staðinn. Það hafi þó verið skrítin upplifun að flytja aftur heim og upplifa sig sem „ungling“ aftur.

Viðtalið við Kristjönu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is