Umbreytir notuðum dekkjum í leikvelli

Börn við leik á leikvelli sem Pooja Rai hannaði.
Börn við leik á leikvelli sem Pooja Rai hannaði. Ljósmynd / Anthill Creations

Ungur kvenkyns arkitekt á Indlandi að nafni Pooja Rai hefur þróað heldur betur óvanalegt, frumlegt og skemmtilegt verkefni að undanförnu.

Á Indlandi eru um 100 milljón dekk sett á haugana árlega, en þessi sniðugi arkitekt nýtir hluta af þessum dekkjum til að hanna leikvelli fyrir skóla sem skortir þá. Dekkin eru máluð í björtum og skemmtilegum litum og mynda hin ýmsu leiktæki.

Pooja stofnaði óhagnaðardrifnu samtökin Anthill Creations og leggja þau áherslu á að það séu réttindi barna að geta leikið sér. Hingað til hafa samtökin unnið að 283 ólíkum leiksvæðum og eru þau að mestu leyti gerð úr lituðum dekkjum.

Pooja Rai hefur hannað marga leikvelli úr dekkjum.
Pooja Rai hefur hannað marga leikvelli úr dekkjum. Pooja Rai frá Anthill Creations

Hönnun Rai er fjölbreytt og má þar meðal annars nefna ýmsa skúlptúra á borð við bíla, byggingar og dýr ásamt rólum, vegasalti og klifurgrindum. Öll þessi hönnun er gerð úr gömlum dekkjum, þar sem þeim er safnað saman, þau þrifin og skoluð gaumgæfilega svo engin hætta stafi af þeim.

Eftir það eru þau máluð í líflegum litum, vatnsvernduð og endurnýtt á svona skemmtilegan hátt, þannig að verkefnið er vistvænt og dreifir mikilli gleði. Um 800 sjálfboðaliðar hafa hjálpað til við ferlið og samtökin ætla sér að setja upp leikvelli á sem flestum stöðum, í almenningsgarða, flóttamannabúðir og reyna að stimpla inn á fjölbreytileikann með ólíka möguleika fyrir ólíkar aðstæður.

Frábært framtak hér á ferð!

Frétt frá: Goodnewsnetwork.

mbl.is