Lét heimsfaraldurinn ekki stoppa hefðina

Dr. La Verne Ford Wimberly.
Dr. La Verne Ford Wimberly. Skjáskot/Facebook

Þrátt fyrir að flestir hafi haldið sig að mestu heima undanfarið ár þykir mörgum gaman að klæða sig upp heima fyrir.

Litagleði og smart föt geta veitt gleði og létt lundina ef maður hefur gaman af því. Stundum nær gleðin þó lengra en skemmtilegt dæmi um það er hin 82 ára dr. La Verne Ford Wimberly, sem hefur slegið í gegn á netinu undanfarið.

Ford er fyrrverandi skólastjóri frá Tulsa í Oklahoma og síðastliðið ár hefur hún klætt sig á hverjum sunnudegi fyrir kirkju, en athöfnin er haldin rafrænt þar sem fólk getur tekið þátt heiman frá sér.

Ford hefur ekki misst af sunnudegi og klæðir sig alltaf upp í litrík og skemmtileg föt með smart hatt í stíl. Í marga mánuði hefur hún deilt mynd á Facebook af „outfiti“ sunnudagsins og hafa myndirnar hennar dreift mikilli gleði um allan heim.

Dr. La Verne Ford Wimberly.
Dr. La Verne Ford Wimberly. Skjáskot/Facebook

Hingað til hefur Ford deilt yfir 50 myndum af sunnudagsklæðnaði sem hafa slegið í gegn. Athyglin hefur komið henni mikið á óvart og segist hún ekki alveg skilja hvað sé svona spennandi við þetta.

Hún hefur fengið mörg hundruð vinabeiðnir á Facebook og fjöldann allan af skilaboðum frá aðdáendum. Aðspurð segir hún að þetta hafi fyrst og fremst snúist um að láta sjálfri sér líða vel og þeim sem tilheyra sömu kirkju.

Í 82 ár hefur hún klætt sig upp í sitt fínasta púss á sunnudögum og hún ákvað að láta engan alheimsfaraldur stoppa þá hefð hjá sér.

Frétt frá: Today.

mbl.is