Alls ekkert flókið og bara notalegt að ferðast

Ferðamenn á veitingastað á Kanarí eyjum í október árið 2020.
Ferðamenn á veitingastað á Kanarí eyjum í október árið 2020. AFP

Á bilinu 7-800 Íslendingar eru staddir á Kanaríeyjum þessa dagana og er Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals-Útsýnar ein af þeim. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Þórunni í Síðdegisþættinum og fengu að vita hvernig staðan er á Kanaríeyjum og hvernig það sé að ferðast á tímum heimsfaraldurs.

„Það er bara voðalega huggulegt hérna og rólegt og bara notalegt. Ekki yfir neinu að kvarta. Fínasta veður, frábært golfveður,“ útskýrir Þórunn sem segist ekki skilja það að fólk vilji ekki ferðast.

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals Útsýnar.
Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals Útsýnar.

„Ég bara skil þig ekki, þetta er bara ekkert vesen. Þú ert bara eins og heima í Reykjavík, þú ert bara að fylgja ákveðnum reglum og bara, þetta er ekkert vesen. Ég meina þú ert ekkert vælandi alla daga heima hjá þér er það?“ spyr Þórunn Sigga, sem segist hafa áhyggjur af því að ferðalög á tímum heimsfaraldurs geti orðið mikið vesen.

Alls ekkert flókið og bara notalegt

Þórunn segir að þrátt fyrir heimsfaraldurinn séu enn veitingastaðir og annað opið á Kanaríeyjum, þó ekki allir veitingastaðir. Þar sé hægt að fara út að borða og að sambærileg grímuskylda sé í gangi þar og hér á Íslandi.

„Fyrir mér er þetta alls ekkert flókið og bara notalegt. Það er náttúrlega algjör lúxus að hafa svona fáa ferðamenn hérna. Hér hefur yfirleitt verið krökkt af ferðamönnum frá öllum stöðum heimsins en hérna eru bara rólegheit og notalegt og yfir engu að kvarta og þið verðið bara að fara að ferðast og fylgja reglunum,“ segir hún.

Sóttkví heima eftir ferðalagið

Kanaríeyjar eru ekki skilgreindar sem sérstakt áhættusvæði og því getur fólk sem ferðast þangað farið í hefðbundna sóttkví heima hjá sér eftir ferðalagið.

„Hérna getur maður fengið PCR-mælingu á hótelinu ef maður vill eða fer á heilsugæslustöð og þetta gengur bara mjög einfalt fyrir sig í alla staði. Þannig að þetta er ekkert að mikla fyrir sér. Þetta er bara svakalega mikill lúxus þegar það eru svona fáir að ferðast,“ útskýrir hún.

Þórunn segir Úrval-Útsýn vera í startholunum með alla sína áfangastaði fyrir sumarið og að auðvitað miðist ferðamennskan við ástandið hér heima og á þeim áfangastöðum sem í boði séu. Einnig fylgist þau vel með framvindu bólusetninga.

Viðtalið við Þórunni má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is