„Það er svo skemmtilegt þegar fólk getur tengt“

Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir leika báðar í …
Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir leika báðar í þáttunum Venjulegt fólk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er svo skemmtilegt þegar fólk getur tengt. Af því að um leið og þú tengir þá hlýtur eitthvað skemmtilegt að vera í gangi,“ segir Júlíana Sara Gunnarsdóttir leikkona um þættina Venjulegt fólk sem hafa hlotið þrjár tilnefningar til Edduverðlaunanna.

Júlíana Sara mætti í viðtal til þeirra Einars Bárðar, Önnu Möggu og Yngva Eysteins í Helgarútgáfuna á dögunum og ræddi þar meðal annars um tilnefninguna, skrifin á þáttunum og fleira. Þar viðurkennir hún að til þess að geta skrifað þætti eins og Venjulegt fólk þurfi þau að vera svolitlir hjarðfræðingar.

„Akkúrat, nákvæmlega. Í rauninni þarf maður að þekkja fólk til þess að geta skrifað þessa seríu. Vinnan á bak við hana er ekki einhver svona „research“-vinna heldur meira bara svona eitthvað: „Ókei skemmtilegt, ég veit um svona karakter og skrifa um hann,“ aðeins að ýkja hann og það kemur eitthvað skemmtilegt út úr því,“ segir hún.

Alltaf hægt að halda áfram

Aðspurð um framhald á þáttunum svarar Júlíana því játandi.

„Þið fáið fjórðu seríu. Það er svoleiðis. Við erum að skrifa fjórðu seríu núna og það er alltaf hægt að halda áfram með þessa skringikaraktera,“ segir hún.

Júlíana segir að henni hafi þótt erfiðast að skrifa fyrstu seríuna en um leið og hún vissi að þættirnir fengju framhald hafi verið auðveldara að skrifa.

„Það er nefnilega magnað; um leið og við vitum að það verður framhald er svo mikið hægt að gera. Bara eins og lífið heldur áfram hjá öllum og ég meina þetta er venjulegt fólk. Lífið heldur áfram hjá þeim líka. Þá er svo auðvelt að koma með eitthvað á borðið sem gæti gerst,“ segir hún.

Viðtalið við Júlíönu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is