„Ótrúlegt hvað fólki dettur stundum í hug að segja við mann“

Iva og Már í tónlistarmyndbandi sínu.
Iva og Már í tónlistarmyndbandi sínu. Skjáskot/Youtube

„Þetta er eins og ég lít alltaf á þetta, jújú auðvitað þarf maður að gera sumt öðruvísi en kannski sjáandi einstaklingar eða margt sem sjáandi einstaklingur gerir sem væri mun erfiðara fyrir mig að framkvæma. En í sjálfu sér er þetta samt fyrir mitt leyti ekkert eitthvað „big deal“. Það hefur alveg fólk komið til mín og sagt bara: „Már, þú ert svo ógeðslega duglegur, bara Guð að labba þarna heim til ömmu þinnar eða yfir götu eða eitthvað.“ En hvað á maður að gera, þú verður að lifa lífinu,“ segir tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson í viðtali við Helgarútgáfuna.

Þrátt fyrir að vera blindur hefur Már unnið til afreka bæði sem sundmaður og tónlistarmaður og tekst hann á við allar þær áskoranir sem lífið færir honum. Má þar meðal annars nefna að Már æfði með búlgarska ólympíuliðinu í sundi.

„Við bara sendum út þá spurningu hvort þeir hefðu áhuga á að fá mig í heimsókn og þeir bara já endilega komdu,“ útskýrir Már, sem segir að stundum þurfi maður bara að þora að spyrja.

Mikilvægt að þora að spyrja

„Það er nokkuð sem ég hef líka rosalega mikið gert út á. Í versta falli fær maður bara nei og það er rosalega oft sem að, eins og núna hef ég unnið með fullt af fólki og fólk getur verið rosalega hrætt við akkúrat það bara að hafa samband og bara svona sjá. En ég er farinn að ganga bara svolítið út á það að vera stundum fáránlega frekur og ná bara mínu í gegn og í versta falli fær maður bara nei,“ segir hann.

Már segir að það gæti hjálpað rosalega mörgum að koma sér á framfæri  sama hvort það sé í tónlist, íþróttum eða almennt í lífinu – að þora að spyrja.

„Að vera bara dugleg að spyrja og forvitnast og sjá hvaða möguleikar eru fyrir hendi og já ekkert vera feimin við það. Ég meina, við erum öll bara manneskjur og enginn eitthvað merkilegri en annar þannig séð sko,“ segir hann.

Búin að þekkjast í mörg ár

Már og Iva Marín söngkona hafa verið að vinna saman í tónlist undanfarið og gáfu á dögunum út nýtt lag sem heitir Vinurinn vor. Bæði Iva og Már eru blind en þau láta það ekki stoppa sig í að vinna að markmiðum sínum.

„Iva sér ekki neitt og ég sjálfur í kringum 1/2%, sem er mjög lítið. Þegar ég fæddist var ég með svona 8%. Lögblindumörkin eru 10% en aftur á móti þá er himinn og haf á milli 8% og ½%,“ segir Már og bætir við: „Við Iva erum samt búin að þekkjast í mörg ár. Við kynntumst fyrst á Dale Carnegie-námskeiði hjá Blindrafélaginu árið 2010 eða 11. Við höfum ekki samt unnið saman í músík fyrr en í fyrra.“

Ótrúlegt hvað fólki dettur í hug að segja eða gera

Lagið Vinurinn vor er samið af Má sjálfum en vinur hans Engilbjartur Einisson samdi textann. Lagið og myndbandið tóku þau upp síðasta sumar. Í upphafi myndbandsins má sjá „skets“ með leikaranum Ladda og segir Már það vera svolítið sem hann hafi langað ofboðslega til þess að gera.

„Maður lendir alveg í ýmsu sem blindur eða sjónskertur einstaklingur og það er alveg ótrúlegt hvað fólki dettur stundum í hug að segja við mann eða gera. Þannig að ég svona settist niður og skrifaði þetta handrit og tók bara saman það besta/versta sem ég hef lent í um ævina með einstaklinga og setti það svo saman í einn hrærigraut. En ég get sagt ykkur það samt að ég „köttaði“ handritið um svona 70% svo það er alveg margt eftir,“ útskýrir hann.

Hann segir að sér hafi þótt voðalega skemmtilegt að taka myndbandið upp og æðislegt að fá mann eins og Ladda með sér í tökurnar.

„Og talandi um að hringja í fólk og bara spyrja. Ég hef aldrei talað við Ladda áður. Ég hafði bara samband og sagði: „Blessaður, ég heiti Már Gunnarsson, músíkant og íþróttamaður úr Reykjanesbæ. Ertu til í að gera þetta með okkur?“ Og hann bara ótrúlega elskulegur og við erum öll bara ótrúlega ánægð með útkomuna,“ segir Már.

Myndbandið við lagið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:

Viðtalið við Má er hægt að hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir