Óhefðbundinn þjófur stal einhyrningsbangsa

Skjáskot /Facebook- síða Duplin County Animal Shelter

Í Kenansville í Norður-Karólínu má finna svokallaða dollarabúð undir nafninu The Dollar General. Búðin selur ýmsan varning og þar á meðal eru krúttlegir bangsar á góðu verði.

Einn ákveðinn fjólublár og mjúkur einhyrningsbangsi var ítrekað að hverfa úr búðinni og var þetta hið furðulegasta mál.

Í ljós kom að hér var um ansi óhefðbundinn þjóf að ræða, þar sem þetta var heimilislaus hundur sem hafði ákveðið að einhyrningsbangsinn væri sinn nýi besti vinur.

Eftir að þetta uppgötvaðist hélt hundurinn áfram að koma í búðina og gera tilraun til þess að taka bangsann með sér. Í hvert sinn sem viðskiptavinur opnaði dyr verslunarinnar smeygði hundurinn sér inn með honum og hljóp rakleiðis í átt að bangsanum. Verslunin hringdi að lokum í dýravernd til þess að fá aðstoð.

Dýraverndarstarfsmaður að nafni Samantha Lane kom til að aðstoða og þegar hún heyrði alla söguna af væntumþykju hundsins í garð bangsans ákvað hún að kaupa blessaðan bangsann og gefa hundinum.

Í kjölfar þess fylgdi hundurinn henni sáttur með nýja besta vin sinn með sér og búa þeir vinirnir nú saman í dýraathvarfi, óaðskiljanlegir. Vinátta getur svo sannarlega verið óhefðbundin, fjölbreytt og alveg ótrúlega krúttleg!

Frétt frá: Tanksgoodnews.

mbl.is