Nóg að gera vegna Miss Universe Iceland

Manúela Ósk Harðardóttir hefur nóg að gera vegna Miss Universe …
Manúela Ósk Harðardóttir hefur nóg að gera vegna Miss Universe Iceland. Í einkaeigu

Elísabet Hulda Snorradóttir sem bar sigur úr býtum í Miss Universe Iceland er farin út til Miami þar sem hún keppnir fyrir Íslands hönd í Miss Universe. Manúela Ósk, sem heldur utan um keppnina hér á landi, ræddi við þau Einar Bárðar, Önnu Möggu og Yngva Eysteins í Helgarútgáfunni en það hefur verið nóg að gera hjá henni undanfarið.

„Hún fór bara út um leið og hún fékk undanþáguna til þess að ferðast. Náttúrlega lokuðust landamærin til Bandaríkjanna og hún þurfti að fá spes undanþágu og um leið og hún kom þá bara ákvað hún að drífa sig og taka bara undirbúninginn úti,“ útskýrir Manúela og bætir við: „Hún þarf ekki að fara í sóttkví og er bara komin á fullt úti. Við erum með marga styrktaraðila í Bandaríkjunum þannig að hún fær allt sem hún þarf. Hún er að fara að máta þjóðbúninginn, hún er að fara að finna kjólinn sinn og allt þetta sem hún þarf að gera áður en hún tékkar inn í keppnina þannig að það er fínt bara að gera það úti.“

Lætur hanna sérstakan þjóðbúning úti

Keppnin sjálf verður ekki haldin fyrr en 16. maí og hefur Elísabet því nægan tíma til þess að undirbúa sig vel. Meðal þess sem hún þarf að gera er að láta hanna fyrir sig sérstakan þjóðbúning fyrir keppnina.

„Þetta kallast þjóðbúningakeppni en þetta er náttúrlega bara svona sýning. Þetta á ekkert endilega að vera einhver hefðbundinn þjóðbúningur og það eru fæst löndin sem gera það. Flest löndin láta hanna fyrir sig einhvern rosalega flottan búning sem „representerar“ eitthvað frá landinu og við höfum gert alls konar. Við höfum gert víkingabúning, við höfum gert eldur og ís og norðurljós og við höfum gert lúpínu. Við fáum bara hönnuð sem gerir þetta með okkur sem er einmitt líka á Miami,“ segir Manúela.

Framlengdi umsóknartímann

Miss Universe Iceland-keppnin fyrir árið 2021 er í undirbúningi hérna heima og það er nóg að gera hjá Manúelu. Umsóknarfresti fyrir keppnina átti að ljúka 31. mars síðastliðinn en vegna samkomutakmarkana ákvað Manúela að framlengja hann til 15. apríl.

„Málið er að það er allt lokað og ég gæti í rauninni ekkert haldið prufurnar á meðan það eru þessar fjöldatakmarkanir og svona og allar líkamsræktarstöðvar lokaðar og það er þar sem ég hef verið að halda þessar prufur. Þannig að ég ákvað bara, fyrst ég get ekki haldið prufurnar, að halda skráningunni opinni áfram þar til í rauninni  hvað er það, 15. apríl? – þegar allt opnast aftur,“ útskýrir hún og bætir við: „Ég vona bara að það haldist, þannig að ég geti farið að byrja þetta. Af því að svo er keppnin hérna heima í september og keppnin úti í desember þannig að það verða í rauninni tvær stórar keppnir á þessu ári.“

Viðtalið við Manúelu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is