Misheppnaður brandari í beinni

Anna Magga, sem leysir af í Ísland vaknar ásamt Einari …
Anna Magga, sem leysir af í Ísland vaknar ásamt Einari Bárðar, fannst ekki mikið koma til brandarans hans Einars.

Einar Bárðarson, sem ásamt félögum sínum í Helgarútgáfunni á K100 leysir þá Jón Axel og Ásgeir Pál af í morgunþættinum Ísland vaknar, sagði brandara í beinni í morgun sem að því er virðist hitti ekki í mark. Reyndi Einar þar að feta í fótspor þeirra Jóns og Ásgeirs sem þekktir eru fyrir fimmaurabrandara á morgnana.

Brandarinn var á þá leið að hann hefði ítrekað reynt að gera heimili sitt öruggt fyrir börnum (e. child proof) en samt kæmust þau alltaf inn. Vakti brandarinn og viðbrögð þáttastjórnenda athygli twittverjans @birkirh sem setti inn skemmtilegt myndband á samfélagsmiðilinn í morgun með orðunum „þegar maður gerir tíst sem fær 0 læk“. Í þessu samhengi verður brandarinn og viðbrögð samstarfsmanna Einars enn fyndnari. Myndbandið getur þú séð hér að neðan.

Einar er hinn sáttasti yfir því „að vera loksins farinn að trenda á Twitter“ og mun mæta galvaskur á vaktina í fyrramálið, eflaust með fleiri brandara í farteskinu. 

mbl.is