Keypti kleinuhringi fyrir meira en hálfa milljón

www.dunkindonuts.com

Undanfarið ár höfum við séð ótal dæmi um góðhjartaða einstaklinga og að góðverkunum virðast engin takmörk sett. Góðmennskan hefur smitað út frá sér og hvatt fólk víðsvegar um heiminn til þess að láta gott af sér leiða og standa saman.

Ég rakst á mjög skemmtilega frétt frá Bandaríkjunum þar sem ónefndur einstaklingur vildi gleðja ótal marga með því að borga óvænt kleinuhringja- og kaffikaup þeirra á einum af veitingastöðum Dunkin' Donuts.

Hann keypti því gjafakort fyrir 4.000 dollara, um 508 þúsund íslenskar krónur, og bað starfsfólkið að nota gjafakortin til að greiða fyrir komandi viðskiptavini þangað til upphæðin kláraðist.

Í fyrstu ætlaði þessi ónefndi einstaklingur að kaupa gjafakort fyrir 1.000 dollara en sagði svo að árið hefði verið það krefjandi að hann ákvað að hækka það í 4.000.

Að sögn starfsfólks staðarins gladdi þetta viðskiptavini mikið og kom þeim virkilega á óvart. Margir vildu þá borga fyrir næsta mann en starfsfólkið útskýrði að það væri nú þegar búið að borga fyrir ansi marga.

Skemmtileg leið til þess að dreifa gleði og sannkallaður kleinuhringja-kærleikur.

Frétt frá: Upworthy.

mbl.is