Þakka vörubílstjórum fyrir sín störf í Covid

Ljósmynd/Skjáskot

Margir hafa uppgötvað ný áhugamál á síðastliðnu ári og eru þau eins margvísleg og þau eru mörg.

Eldri hjón í Kanada hafa tekið upp óvanalegt og ofur krúttlegt áhugamál í faraldrinum sem hefur dreift gleði til margra. Hjónin heita Beverly og Dick Perrin og saman skrifa þau þakkarbréf til vörubílstjóra sem þau fara með á stoppistöðvar vörubíla svo bílstjórarnir geti nálgast þau.

Beverly og Dick höfðu séð fréttir af því hve erfitt ástandið var fyrir vörubílstjórana og hversu krefjandi vinna þeirra var í þessum erfiðu kringumstæðum. Þau langaði því til að þakka þeim fyrir hetjudáð sína og mikilvægt starf þeirra við að viðhalda samfélaginu og keyra út mikilvægar vörur.

Hjónin byrjuðu þetta framtak í apríl í fyrra og hafa nú skrifað um 1.000 þakkarbréf. Hvert og eitt bréf er handskrifað, þar sem þau skrifa meðal annars: „Þakka ykkur svo mikið fyrir að koma alltaf með vörur í búðirnar svo við getum keypt inn, þrátt fyrir krefjandi og erfiðar aðstæður í vinnunni ykkar. Farið vel með ykkur og passið ykkur. Guð blessi ykkur. Ást frá mjög þakklátum eldri borgurum.“

Hjónin eru þekkt fyrir góðverk sín og segja vinir og vandamenn þeirra að þetta fallega framtak sé mjög einkennandi fyrir þau. Aðspurð segjast þau reyna að láta gott af sér leiða og það veiti þeim mikla hamingju.

Frétt frá: Tanksgoodnews.

mbl.is