Gerir mann hryggan að hugsa um tímakaupið

Silja Hauksdóttir leikstjóri.
Silja Hauksdóttir leikstjóri. mbl.is/Á​sdís

Silja Hauksdóttir leikstjóri stýrði sjónvarpsþáttaseríunni Systraböndum sem er væntanleg í Sjónvarp Símans Premium um páskana. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Silju í Síðdegisþættinum og fengu að vita meira um þættina og vinnslu þeirra.

„Þetta er um þrjár fullorðnar konur sem eru neyddar saman í nútíðinni út af svolitlu sem þær gerðu í fortíðinni sem unglingar. Þær eiga allar svolítið á samviskunni sem þær óska þess innilega að hafa ekki gert og svo fjallar serían svolítið um að þær neyðast til þess að horfast í augu við það þegar syndir fortíðarinnar afhjúpast,“ útskýrir Silja.

Vinnan nær níu ár aftur í tímann

Serían kemur í heild sinni inn á Sjónvarp Símans Premium um páskana og geta áhorfendur því valið hvort þeir horfa á einn þátt eða alla í einu.

Silja segir að vinnan á bak við seríuna nái allt að níu ár aftur í tímann.

„Ég held að það séu svona átta ár eða níu síðan við byrjuðum að skrifa niður einhverjar hugmyndir á servíettur. En maður vill ekkert alltaf vera að reikna út tímakaupið, það gerir mann svolítið hryggan. Þetta er langhlaup og auðvitað eru alls konar ólíkir kaflar inni í þessu langhlaupi sem halda okkur öllum við efnið þess á milli. Við erum alltaf að gera svo ólíkt innan ferlisins þannig að það er hressandi á móti. Núna til dæmis er akkúrat tímabil þar sem ég get bara verið að kvíða, dunda mér við það,“ segir hún.

Silja situr ekki auðum höndum þrátt fyrir að serían sé tilbúin. Hún segist nú þegar vera byrjuð að vinna í þremur nýjum verkefnum á ólíkum stigum.

Viðtalið við Silju má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is