Listaverk Banksys selt til styrktar heilbrigðisstarfsfólki

Ljósmynd/Banksy listaverkið

Listamaðurinn Banksy er bæði dularfullur og hæfileikaríkur en enginn veit hvaða einstaklingur er á bak við listamanninn.

Banksy gaf listaverk til góðgerðarsjóðs fyrir heilbrigðisstarfsmenn í maí síðastliðnum. Verkið, sem gengur undir nafninu Game Changer, sýnir lítinn dreng að leika sér með dúkku klædda í fatnað hjúkrunarfræðings.

Hjúkrunarfræðingsdúkkan heldur hendinni uppi eins og sannkölluð ofurhetja, klædd í skikkju, en Batman og Spiderman liggja í körfu fyrir neðan.

Game Changer var sent til spítala í Southhampton og með fylgdi miði sem á stóð: „Takk fyrir allt sem þið eruð að gera. Ég vona að þetta listaverk lýsi aðeins upp umhverfi ykkar, þrátt fyrir að myndin sé í svarthvítu.“ Talsmenn spítalans sögðu myndina hafa gert mikið fyrir sig og veitt öðru starfsfólki og sjúklingum mikla gleði og von.

Listaverkið umrædda var svo á dögunum selt á uppboði og með sölu á verkinu tókst góðgerðarsjóðnum að safna um 16 milljónum punda, sem jafngildir um 2,8 milljörðum íslenskra króna.

Verkið er jafnframt dýrasta verk sem Banksy hefur nokkurn tíma selt. Magnað og algjörlega frábært framtak!

Frétt frá: BBC.

mbl.is