Lá á hvolfi í brekkunni: „Erfiðasta sem ég hef gert“

Ásgeir Páll gekk upp að eldgosinu um helgina og segir …
Ásgeir Páll gekk upp að eldgosinu um helgina og segir gönguna eitt af því erfiðasta sem hann hefur gert. Eggert Jóhannesson

„Þetta var með því erfiðasta sem ég hef gert held ég,“ segir Ásgeir Páll í morgunþættinum Ísland vaknar og vísar þar til ferðar sinnar upp að eldgosinu á Fagradalsfjalli um helgina.

„Við lögðum af stað fyrir klukkan fjögur á laugardagsmorgninum til þess að sjá það í ljósaskiptunum. Við keyrðum suður eftir og það var nú svo sem ekkert mál, við fórum tvær fjölskyldur saman og lögðum þarna á Suðurstrandarveginum og þurftum að labba einhverja 4-500 metra til þess að geta labbað síðan út í hraunið og þar var náttúrlega allt fullt af björgunarsveitarmönnum og ótrúlega mikið af fólki sem hefur hugsað þetta sama,“ útskýrir Ásgeir Páll enn fremur.

Gat ekki hugsað sér að halda áfram

Um leið og Ásgeir Páll lagði af stað upp fjallið fann hann að hann byrjaði að verða móður.

„Og ég varð móðari og móðari og móðari og svo byrjum við að labba þarna upp áður en við komum að brattasta hjallanum þar sem kaðallinn er. Svo gerist það. Ég finn allt í einu að mig er að byrja að svima pínulítið þannig að ég segi við Elínu: „Heyrðu, bíddu, ég ætla aðeins að setjast hérna niður.“ Ég er þarna utan í fjallshlíðinni. Ég segi: „Ég ætla aðeins að setjast niður,“ og ég sest niður og við erum að tala um að það eru svona 12-15 metrar á sekúndu og tíu stiga frost, það er skítkalt þarna. Og ég sest niður og ég segi við Elínu: „Veistu það Elín, þú verður bara að klára þetta, ég bíð bara hérna, ég er ekkert að fara lengra,““ segir Ásgeir Páll.

Eftir að Ásgeir Páll settist niður hélt dramatíkin áfram og hann fór að upplifa mikið sykurfall.

„Ég ældi af því að mig svimaði svo rosalega þannig að hún lét mig hafa eplasafa einhvern og ég drekk það og svo ákvað ég að leggjast utan í fjallið til þess að reyna að fá súrefni til heilans. Ég lagðist bara svona utan í til hliðar og svo hugsaði ég: þetta er ekki nóg, ég þarf að fá meira súrefni og meira blóð upp í höfuðið svo ég sneri mér við þannig að höfuðið sneri niður. Og þá svona fann ég að það kom aukin orka þannig að ég ætla að standa á fætur en ég gat ekkert staðið á fætur. Þannig að ég festist sem sagt í fjallinu og það komu þarna sem betur fer einhverjir góðhjartaðir göngugarpar. Og þeir þurftu með einhverri aðgerð, tóku sem sagt hvor í sína löppina á mér og hvor í sína höndina til þess að snúa mér í fjallinu þannig að ég gæti síðan staðið upp,“ útskýrir Ásgeir með mjög svo dramatískum tilþrifum.

Söguna hans Ásgeirs um ferð hans að gosinu má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is