Ragga Nagli: „Aldrei örugg, alltaf berskjölduð“

Ragga Nagli.
Ragga Nagli. Skjáskot/Facebook

„Ekki hlaupa ein. Alltaf í hóp eða með vinkonu. Helst ekki hlaupa í myrkri. Ekki hlaupa í skógi. Ekki hlaupa á fjalli. Hlauptu bara á vel upplýstum göngustígum. Reyndu að hlaupa í dagsbirtu. Hlauptu meðfram götunni svo einhver sjái ef þú verður fyrir árás. Vertu með tónlist bara í öðru eyranu svo þú heyrir ef einhver kemur aftan að þér,“ á þessum orðum hefur Ragga Nagli nýjustu færslu sína á Facebook sem hún gaf K100 góðfúslegt leyfi til að fjalla um.

Hún heldur áfram að telja upp ráð sem margar konur kannast við að hafa fengið í gegnum tíðina. Ráð sem ættu að hjálpa til við að halda þeim öruggum frá ofbeldi. Meðal fleiri ráða sem Ragga telur upp eru að konur hlaupi með lyklana á milli fingranna, láti fjölskyldu og vini vita hvert þær ætli að hlaupa og fari á rándýrt sjálfsvarnarnámskeið.

Aldrei örugg, alltaf berskjölduð

„Einfaldur hlaupatúr hjá konu krefst þannig meiri undirbúnings og skipulagningar en að slá upp indversku þriggja daga brúðkaupi. Aldrei örugg, alltaf berskjölduð. Hrædd, kvíðin, áhyggjufull,óttaslegin,“ segir hún.

Ragga segir skilaboð til kvenna vera þau að þær skuli alltaf vera á varðbergi, með augu í hnakkanum og jaðarsjónvirknina virkjaða. Ávallt viðbúnar að verða fyrir og taka á móti árás.

„Ef kona lendir í áreitni eru heykvíslarnar fljótar á loft og fórnarlambsskömmin dælist á lyklaborðið. „Hún hefði nú ekki átt að vera ein á ferð að hlaupa!!“ „Hver hleypur á skógarstíg í myrkri??“„Hvernig dettur henni í hug að spranga um í níðþröngri brók sem æsir hitt kynið.“

Mikilvægt að fræða stráka

Ástæða Röggu fyrir pistlinum er vegna morðsins á Söru Everard sem vakið hefur mikinn óhug.

„Kona getur sinnt öllum varúðarráðstöfunum en ef 90 kílóa kjötaður karlmaður kemur askvaðandi með kreppta hnefa og árásarglampa í auga þá eru lyklarnir að Mözdunni og sjálfsvarnartækni frá námskeiði í Ármúlanum jafn gagnleg og regnhlíf í íslensku skítaveðri,“ útskýrir Ragga.

Þá segir hún að í stað þess að brýna fyrir konum hvernig þær eigi að hegða sér, hvort það sé ekki skynsamlegra að fræða stráka um hvaða hegðun sé viðeigandi gagnvart konum.

„Meðvitund um eigin hegðun, samhyggð og skilningur frá karlmönnum er líklegra til að stuðla að breytingum og betri veröld fyrir konur en heil blaðsíða af leitarniðurstöðum Google um hvernig eigi að vera örugg á gangstétt. Þannig stuðlum við að valfrelsi fyrir stelpur og konur um hvar, hvenær og hvernig þær labba heim eftir djammið, í hlaupatúra, göngutúra, ferðast í skóla, vinnu eða rækt. Þegar land verður fyrir hryðjuverkaárás er íbúum annarra landa ekki sagt að breyta hegðun sinni til að verða ekki líka fyrir árás. En konum er sagt að breyta hegðun sinni til að verða ekki fyrir árás,“ segir hún.

Ragga segir þessar varúðarráðstafanir fyrir konur vera fórnarlambsvæðing í hnotskurn og bendir á þá staðreynd að ofbeldi sé ekki á ábyrgð þolandans heldur gerandans.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir