Sorphirðumaður og lítill strákur sameinast í dansi

Skjáskot/Instagram

Góðan og gullfallegan daginn og gleðilegan föstudag, þar sem helgin bíður okkar með opna arma.

Eins og margir vita er dans einn af mínum uppáhaldsgleðigjöfum og mér finnst ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig hann getur sameinað fólk og gert dagana skemmtilegri. Ég rakst á ofurkrúttlegt myndband á dögunum sem er stútfullt af föstudagsstraumum.

Þar var fjögurra ára strákur í Suður-Karólínu sem hljóp út á lóðina fyrir utan heimili sitt þegar sorphirðustarfsmenn voru að vinna í götunni hans. Strákurinn byrjar að dansa í takt við einn starfsmanninn og með góðri fjarlægð hoppa þeir saman og dansa, með sporin alveg á hreinu.

Móðir drengsins sem tók upp myndbandið skemmti sér greinilega mjög vel yfir þessu og þar sem myndbandið hefur slegið í gegn á netinu hafa eflaust margir aðrir náð að gleðjast yfir þessum dansi.

Verum óhrædd við að tjá okkur með hreyfingum og leyfum okkur að dansa um helgina ef okkur langar til þess. Mér finnst til dæmis fátt skemmtilegra en að sjá fólk dilla sér í matvörubúðum og njóta augnabliksins. Lífið er of stutt til þess að leyfa sér ekki bara að dansa!

mbl.is