Reyndu að klifra upp á svið til að angra Bubba

Rúnar Freyr Gíslason svaraði tuttugu ógeðslega mikilvægum spurningum.
Rúnar Freyr Gíslason svaraði tuttugu ógeðslega mikilvægum spurningum. Eggert Jóhannesson

Rúnar Freyr Gíslason leikari og verkefnisstjóri Rúv svaraði á dögunum tuttugu ógeðslega mikilvægum spurningum í Síðdegisþætti Loga Bergmanns og Sigga Gunnars.

Rúnar segist alltaf vera til í hamborgara og að það sé besti maturinn sem hann borði.

„Ég gæti farið að nefna eitthvað „fancy“ en ef ég á að vera „strong“ heiðarlegur sem ég reyni nú alltaf þá segi ég bara hamborgarar. Ég held ég sé alltaf til í hamborgara þótt ég hafi borðað einn í gær og annan í fyrradag,“ segir Gísli.  

Var næstum því handtekinn á tónleikum hjá GCD

Þá segist Rúnar næstum því hafa verið handtekinn á tónleikum hjá Bubba Morthens á árum áður.

„Það stefndi í það, ég var í Vestmannaeyjum '92 líklega þegar GCD eru þar og við strákarnir erum að reyna að klifra upp á svið að angra Bubba og Rúnar Júl sem eru þar. Pétur vinur minn hann er hægra megin á sviðinu og ég vinstra megin og alltaf þegar Pétur fer upp fara verðirnir þangað og þá hoppa ég upp á sviðið og við reynum að hanga eins lengi og við getum og hoppum alltaf niður aftur þangað til þeir ná mér og henda mér bak við sviðið. Þá kemur löggan og strappar mig með svona gúmmíhandjárnum og ég byrja bara að vera pínu lítill í mér og segi: „Ég er bara góður strákur, ég er bara góður strákur úr Versló, sko strákar, ég var ekki að meina neitt,“ og þá losuðu þeir mig.“

Rúnar segist alltaf hafa ætlað sér að verða fjölmiðlamaður allt frá því að hann var ungur drengur.

„Fjölmiðlamaður held ég, svona fréttamaður. Þetta hefur að gera líka með þessa framkomu sem mér finnst svo skemmtileg. Umhverfið í kringum hana, það er alltaf svo hár prófíll og „stresselement“. Eins og leikarinn, frumsýningin er að koma og það er fullt af fólki og það má ekkert klikka. Þetta keyrir mig rosalega mikið áfram svona bein útsending og líka hópvinna. Að fara að einhverju marki með pródúsentum og fullt af fólki á bak við tjöldin og svona og svo gera allir eitthvað saman,“ segir hann.

Getur hoppað upp á píanó jafnfætis

Aðspurður um leynda hæfileika stendur ekki á svörum hjá Rúnari.

„Já ég get náttúrlega flautað og ég er með grettur. Svo get ég, eða gat allavegana, ég hef ekki reynt það í svona ár, hoppað upp á píanó jafnfætis. Eða barborð, ég er bara hættur að standa við þau, ég er orðin klassískari,“ segir hann og hlær.  

Rúnar segist vera sérfræðingur í franskri súkkulaðiköku en það besta sem hann eldi sjálfur sé ekki beint réttur heldur sérstök piparosts-rjóma-sveppasósa sem virki með öllu.

Þá segist Rúnar hafa verið barnastjarna í fótboltanum allt frá því hann var sjö ára.

„Ég byrjaði með Leikni þegar ég var fimm ára og fór svo í Fram og var alveg til nítján, tuttugu ára og ég var svona markaskorari, ég skoraði alveg svakalega mikið af mörkum og fékk bikara fyrir markamet og svona,“ segir hann.

Leiðinlegt að vera í aðstæðum sem hann vill ekki vera í

Það skemmtilegasta sem Rúnar gerir er að spila golf með Loga og fara í golfferðir.

„Svo finnst mér líka ógeðslega skemmtilegt að vera á hóteli í heitu landi með konunni minni, ekki endilega börn heldur bara við tvö. Svo hef ég líka meira og meira með aldrinum gaman af því að fylgjast með börnunum mínum þegar þau eru að gera góða hluti, eru almennileg og ekki óþekk og maður fyllist einhverri gleði við að horfa á það,“ viðurkennir hann.

Það leiðinlegasta sem Rúnar gerir er að fara í aðstæður sem hann vill ekki vera í.

„Tala við fólk sem ég nenni ekki að tala við. Ég er meðvirkur sko þannig að ég verð að standa mig og ég á að „delivera einhvern veginn en ég nenni því ekki og ég fæ ekkert út úr því. Eiginlega ef ég er settur í stöðu sem ég vil ekki vera í. Ef einhver ýtir mér í það, það er eiginlega það, þegar einhver stjórnar mér of mikið,“ segir hann.

Tuttugu ógeðslega mikilvægar spurningar með Rúnari Frey er hægt að hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is