Víðir: „Það er ekkert lát á þessu“

Víðir Reynisson
Víðir Reynisson Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun um stöðuna á Reykjanesi. Svæðið róaðist í nótt en aukinn kraftur virðist vera kominn aftur á svæðið nú í morgunsárið.

Aðspurður út í stöðuna einmitt núna segir Víðir það augljóst að atburðarásin sé að halda áfram.

„Það voru það margir sterkir skjálftar í nótt og svo þessir sem þið nefnduð þarna áðan í morgun, þannig að það er ekkert lát á þessu. Það er bara eðlilegt í svona hrinum að það sveiflist virknin aðeins upp og niður en í gær mældust 2.500 jarðskjálftar, það er nú dálítið mikið,“ segir Víðir.

Búið að safna miklu af gögnum

Víðir segir vísindamennina vera að vinna með tvær sviðsmyndir einmitt núna, annars vegar að sprungan opnist á milli Fagradalsfjalls og Keilis og hins vegar að hún opnist sunnar.

„Þannig að við erum enn þá svona innan þess ramma sem við höfum verið að horfa á. Við sjáum hvernig dagurinn í dag þróast, ef að gangurinn sem menn eru að reyna að teikna hérna upp, ef hann fer að færast eitthvað mikið til, þá fáum við bara ný hermilíkön og sjáum betur hvernig þetta verður. Núna er verið að safna miklu af gögnum og búið að gera það í nótt og veðurstofan og Háskólinn voru að bæta við fleiri mælitækjum í gær þannig að við erum að reyna að teikna þessa mynd nákvæmar upp og eftir því sem dagarnir líða þá skýrist þetta,“ segir hann.

Öðruvísi en þau eldfjöll sem við höfum fylgst með undanfarin ár

Í Kastljósi í gær var rætt um að eins og staðan er núna séum við stödd í Fagradalskerfi en að líkur séu á að öll kerfin gætu farið að tala saman.

„Já, það er kannski bara eins og það er búið að gera núna síðast árið, að það hefur byrjað virkni vestar á nesinu og svo hjá Grindavík og svo hjá Svartsengi og síðan Krýsuvík og síðan þetta þannig að þetta er bara eins og þau segja að svona spennubreytingar á einum stað kalla á breytingar á öðrum stað. Þannig að það er ekkert óeðlilegt og þetta er kannski það sem er áhugavert líka, svona jarðfræðilega í þessu, að þetta er svona öðruvísi en kannski þau eldfjöll sem við höfum verið fylgjast með undanfarin ár þar sem þú ert með eitthvert fjall og þú ert með einhverja kvikuholu undir því og það gýs einhvers staðar í kringum það fjall út frá einhverjum sprungum.

Þetta er svolítið öðruvísi kerfi, það er ekki svona fast kvikuhólf beint undir þessu þannig að hún er svona aðeins öðruvísi atburðarásin sem verður á svona stöðum. En við erum bara að búa okkur undir það að vera á leiðinni í eitthvað svona virkt tímabil á Reykjanesinu og við kunnum alveg að lifa með eldfjöllum og við kunnum alveg að hegða okkur í kringum eldgos þannig að við bara tökum einn dag í einu í þessu á meðan við erum að sjá hvernig þetta þróast. Á sama tíma erum við auðvitað að horfa til lengri tíma, að eitthvað annað geti gerst einhvers staðar annars staðar eins og við höfum verið að tala um, við erum enn þá með þessa mynd uppi að það gæti orðið stærri jarðskjálfti nær Bláfjöllum til dæmis sem að hefði áhrif mjög víða,“ útskýrir Víðir.

Treystir gögnum vísindamannanna

Sjálfur segist hann vera nokkuð slakur yfir ástandinu enda treysti hann gögnum vísindamannanna vel.

„Við náttúrlega eigum ótrúlega flott vísindafólk, ekki bara hér á Íslandi heldur sem er að vinna víða um heim. Við erum í samskiptum við íslenska vísindamenn á Nýja-Sjálandi og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og það eru allir að leggjast á eitt og reyna að túlka þessi gögn og þekking okkar er heilmikil, þó að við sjáum ekki ofan í jörðina að þá er hægt að mæla ansi mikið í því og bara þau gögn sem liggja á borðinu gefa enga ástæðu til þess að vera með einhverja panikk. Það er ekkert þannig í spilunum, við erum auðvitað öll Íslendingar þannig að við erum tilbúin í hvað sem náttúran býður okkur upp á og tökumst á við það þegar það kemur, en eins og staðan er í dag þá er engin ástæða til þess að vera eitthvað hræddur,“ segir hann.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist