Vissi ekki að Sharon hefði deilt myndinni

Hörður Kristleifsson er með 357 þúsund fylgjendur á Instagram.
Hörður Kristleifsson er með 357 þúsund fylgjendur á Instagram. Ljósmynd/Samsett

Hörður Kristleifsson er með 357 þúsund fylgjendur á Instagram og í gær birti K100 frétt þess efnis að leikkonan Sharon Stone hefði á dögunum endurbirt mynd frá Herði á Instagram-síðu sinni. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Herði og fengu að vita hvernig hann fór að því að verða svona vinsæll og hverjar áherslur hans eru.

„Það eiginlega gerðist svolítið fljótt,“ segir Hörður, spurður út í fylgjendahópinn. Hann bætir við: „Í janúar 2019 var ég bara með í kringum 2000 sko, svo er þetta bara kraftur internetsins. Myndirnar fara út um allan heim.“

Hörður birtir aðallega myndir og myndbönd af íslenskri náttúru en hún hefur lengi vel verið mikið aðdráttarafl fyrir fólk búsett erlendis.

„Svo er nýtt komið á Instagram sem heitir „reels“ það er svona alveg eins og TikTok þannig að að þar hafa mörg myndbönd farið alveg yfir milljón „views“ hjá mér,“ segir hann.

Vissi ekki að Sharon hefði birt myndina

Hörður vinnur mikið með dróna og tekur skemmtileg myndbönd með honum. Hann segir fókus sinn vera á að sýna ný sjónarhorn. Spurður út í myndbirtingu Sharon Stone segist Hörður hafa komið af fjöllum.

„Ég bara vissi ekkert af þessu, hún sendi mér ekki neitt um þetta. Ég fann út úr þessu í morgun. Ég veit ekki alveg hvort þetta hafi haft áhrif af því að ég setti þessa mynd inn í janúar og hún fór gjörsamlega út um allt internetið. Ég hækkaði um einhverja 50 þúsund fylgjendur á svona „repostum“ frá þessari mynd,“ segir hann.

Hörður segist hafa mestan áhuga á hálendinu á sumrin og Suðurlandinu. Hann viðurkennir að hann ferðist mikið einn en að það sé auðvitað skemmtilegra að finna einhvern sem nenni að fara með honum í ljósmyndaferðir. Þá hefur hann unnið með þema og á öllum þeim myndum sem hann sést á er hann í rauðum jakka. Hann segist hafa nóg að gera vegna síðunnar en um 90% af fylgjendum hans eru erlendir og þeir hafi mikinn áhuga á því að kaupa myndir af honum. Sjálfur stundar hann nám í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og er vinnslan á síðunni og myndum hans því aðeins áhugamál eins og er.

Viðtalið við Hörð má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is