Baráttan um Útvarp sögu heldur áfram

Ásgeir Páll, Bíó-Bússi og Þór Bæring.
Ásgeir Páll, Bíó-Bússi og Þór Bæring. Ljósmynd/Samsett

Á dögunum fór af stað heilmikil umræða um útvarpsstöðina Útvarp sögu og í kjölfarið brutust út deilur á milli starfsfólks K100 sem snerust um það hver hefði verið fyrsti starfsmaður stöðvarinnar. Þau Kristín Sif, Ásgeir Páll og Jón Axel héldu áfram að ræða um deiluna í morgunþættinum Ísland vaknar eftir að í ljós kom að enn annar samstarfsmaður þeirra vissi sannleikann.

„Það var verið að reyna að ljúga því upp á mig að ég hefði verið ábyrgur fyrir þessari stöð sem var náttúrlega alveg sénslaust vegna þess að ég man ekkert eftir því og mundi ekkert eftir því,“ segir Jón Axel.

Upphafið að deilunum má rekja til þess að Þór Bæring greindi Kristínu Sif frá því að hann hefði verið fyrsti starfsmaður Útvarps Sögu. Ásgeir Páll þvertók fyrir það og sagðist sjálfur hafa verið fyrsti starfsmaðurinn.

Þessi vafasami heiður var þó tekinn af þeim snarlega þegar Bíó-Bússi, sem flytur hlustendum K100 allar nýjustu fréttir af þáttum og bíómyndum, var með sannleikann á hreinu.

Hver var því í raun og veru fyrsti starfsmaður Útvarps Sögu?

„Ég,“ segir Bússi og bætir við: „Þetta er náttúrlega búin að vera lygasaga en ekki Útvarp Saga síðustu vikuna. Ég er stoltur af því að hafa stofnað Útvarp Sögu sem spilaði íslenska tónlist og gerði það með stakri prýði. Svo kom einhver Jón Axel og breytti þessu í einhverja rifrildastöð.“

Bússi segir Jón Axel eiga Útvarp sögu eins og við þekkjum það í dag alveg skuldlaust.

Skýringin er því sú að Bússi stofnaði útvarpsstöðina sem spilaði tónlist og Ásgeir Páll var fyrsti starfsmaðurinn þar. Síðar kom Jón Axel og breytti henni í talmálsútvarpsstöð og Þór Bæring var fyrsti starfsmaðurinn sem var ráðinn þar.

Umræðurnar má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is