Víðir: „Við þurfum að undirbúa okkur“

Víðir Reynisson ræddi um mögulegt eldgos í morgunþættinum Ísland vaknar.
Víðir Reynisson ræddi um mögulegt eldgos í morgunþættinum Ísland vaknar. Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra, ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar um stöðuna á Reykjanesi vegna jarðskjálftanna og mögulegs eldgoss, en næstu daga og sólarhringa má gera ráð fyrir gosi þrátt fyrir að ekkert sé öruggt.

„Þetta heldur bara áfram, þessi jarðskjálftahrina og nú sjáum við það betur, kannski í dag en kannski jafnvel ekki fyrr en eftir nokkra daga hvernig þetta kvikuinnskot sem við sáum að var að byrja eða sáust greinilega merki um í gær, hvernig það þróast. Þannig að þetta eru svolítið spennandi tímar, að sjá hvernig þetta fer, en við þurfum að undirbúa okkur. Við bættum þessari þriðju sviðsmynd við í gær og við horfum auðvitað áfram í þessa skjálfta sem við erum orðin kannski, ég segi nú ekki vön en við erum farin að þekkja ansi vel og síðan er alltaf þessi möguleiki að það verði stærri skjálfti og svo þessi þriðja sviðsmynd að þetta endi með einhverju hraungosi þarna við Keili og á því svæði,“ segir Víðir.

Aðspurður út í hættu vegna Reykjanesbrautar og rafmagnslína sem liggja til Keflavíkur segir Víðir það vera eitt af því sem skoðað verði í dag.

„Hvaða áhrif þetta getur haft á innviðina og svona fyrstu spár vísindamanna um svona gos eins og þarna, er að þetta verði ekki stórt og verði hraungos. Eins og Þorvaldur [innsk. blm. í Kastljósinu] fór ágætlega inn á í gær, þá er þetta gos kannski að renna einhverja fimm kílómetra að meðaltali þannig að við þurfum að skoða ýmis líkön,“ segir hann.

Víðir segir alla viðeigandi aðila vera að skoða áhrifin sem gosið gæti haft en þeir séu þó ekki að horfa á rýmingu í Grindavík í þessu tilfelli þrátt fyrir að bærinn sé nálægt.

„Ef það gýs þarna, þar sem þetta innskot virðist vera að myndast, þá er landslagið bara þannig að Grindavík er ekki í hættu og að sjálfu sér engin byggð sýnist okkur miðað við þær forsendur sem eru í útreikningunum núna,“ segir hann.

Sóttvarnalæknir kominn í annað verkefni

Hann segir vindátt geta skipt miklu máli þegar gos verður enda sé alltaf hætta á gastegundum sem geti fylgt í kjölfarið.

„Það er það sem fylgir oft þessum hraungosum, þó að við sjáum að þessi staðsetning varðandi hraunflæði er kannski ekki svo slæm. En það fer svo sem eftir stærð gossins, en það er svo sem alltaf hætta á gastegundum sem fylgja eldgosum þannig að það er eitt af því sem við erum að skoða. Það vill nú þannig til í almannavarnakerfinu á Íslandi að sá sem ber ábyrgð á því að fylgjast með þeim málum og gefa út viðvaranir og leiðbeiningar til almennings, að það er annars vegar Umhverfisstofnun sem sér um mælingar og annað slíkt, en sá sem sér um viðvaranir og leiðbeiningar það er maður sem við höfum séð nokkrum sinnum í sjónvarpinu undanfarið. Það er sóttvarnalæknir, þannig að það er ekki bara ég sem er kominn í annað verkefni heldur líka hann,“ segir Víðir.

Viðtalið við Víði er hægt að hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is